Rósirnar heilsurækt
Hugsaðu vel um líkama og sál. Settu sjálfa þig og þína heilsu í fyrsta sæti.

27.04.2013 16:05

Að velja réttu leiðina fyrir þig sjálfa

Að velja réttu leiðina fyrir þig sjálfa

Enn á ný er helgi. Er ekki alveg magnað að það séu eiginlega bara tveir virkir dagar í viku hverri? Föstudagur og mánudagur og svo er helgi?

Það er skrýtið andrúmsloft sem liggur yfir öllu þessa dagana finnst mér. Ótrúlegasta fólk er í lægð dögum saman. Ég hef heyrt í konum undanfarið sem segjast jafnvel aldrei áður hafa sokkið jafn langt niður og núna. Samt er að koma sumar.

En hvað er að valda þessari lundarfarslegu lægð? Allt og auðvitað ekkert líka. Það þarf ekkert alltaf að finna endalausar skýringar og ástæður fyrir öllu. Stundum líður okkur bara hreinlega ekki vel og við þurfum ekkert endilega að kryfja það til mergjar. Við þurfum að vera meðvitaðar um að við megum eiga okkar niður daga, það er enginn heimsendir, en við verðum líka að vera meðvitaðar um það að við þurfum að fara upp úr lægðinni líka. Lægðir eru ekki komnar til að vera endalaust – munið það!

Ég hef sagt ykkur frá mörgum misjöfnum köflum úr mínu lífi og líf mitt hefur verið ansi hreint skrautlegt. Ég hef hoppað á milli þess að vera kát og glöð og þess að vera döpur og leið og með engan vilja til að lifa eða vera.

En í dag sit ég og hugsa til þeirra sem ekki líður vel. Hugsa til allra þeirra sem á þessari stundu eiga í baráttu við sjálfa sig og sjá ekki neinn tilgang með neinu. Úff,  – ég var þarna sjálf. Ég var á þessum sama stað. Ég sat meira og minna í þessum sömu sporum í hátt í þrjá áratugi. Bíddu, hvað ég aftur gömul? Hundrað ára? Nei, nefnilega ekki. Ég er fjörutíu og eins árs og hef eytt mest öllum árum lífs míns í baráttuna um það að ákveða hvort þetta allt sé virkilega þess virði. Ég hef fundið svarið og svarið er já. Lífið er þess virði.

Ég er á toppnum í dag. Finnst æðislegt að lifa og vera til. Takast á við dagleg störf og njóta. Ég er ákveðin í því að þegar ég kveð þetta jarðneska líf þá muni ég hafa átt mikið fleiri góð ár en slæm.

Haldreipið og húmorinn

Það er tvennt sem stendur upp úr svona eftir á sem hefur haldið í mér lífinu og komið mér á þann stað sem ég er á í dag.

Í fyrsta lagi eru það yndislegu börnin mín og yndislega fjölskyldan mín. Börnin mín eru líf mitt og yndi og ég mun gera allt sem ég get til að hjálpa þeim í þeirra málefnum. Fjölskyldunni reyndi ég árum saman að ýta frá mér með misgóðum árangri. En þau fóru aldrei, voru skammt undan – sem betur fer. Ég einangraði mig frá öllu og öllum. En í raunni má kannski segja að ég hafi einangrað mig mest frá mér sjálfri því ég afneitaði sjálfri mér að nánast öllu leyti. Neitaði mér algjörlega um gæði lífsins, að njóta nokkurs skapaðs hlutar. Um leið og ég fór að njóta einhvers þá vandaði ég mig við að eyðileggja þá sælu með einhverju móti.

En í öðru lagi hefur húmor fyrir sjálfri mér haldið í mér lífinu. Ég á ákaflega auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á nánast hvaða kringumstæðum sem er. EFTIRÁ nota bene. Eftir að hafa legið í rúminu í þrjá daga í þunglyndiskasti, grenjandi og volandi þá fór ég á endanum á fætur, þvingaði sjálfa mig til að líta til baka, horfa yfir þessa þrjá daga og setja mig aðeins útfyrir kassann og reyna að horfa á sjálfa mig út frá öðru sjónarhorni. Þetta var yfirleitt gríðarlegt átak – að rífa mig á lappir til að takast á við skyldur daglega lífsins.

Ég hef nú stundum verið sögð kaldhæðin:

- * - * - * - * - * - * -

Einu sinni hittust feitur maður og mjór á götu. Feiti: „Þegar maður sér þig heldur maður að það sé hungursneið í landinu!“ Mjói: „Já, þegar maður sér þig heldur maður að það sé þér að kenna!“

- * - * - * - * - * - * -

Róni gekk upp að konu á Laugaveginum. „Ég hef ekki borðað í fjóra daga!“ Konan leit á rónann og sagði: „Ég vildi óska að ég hefði þennan viljastyrk!“ 

- * - * - * - * - * - * -

Það er svo ótrúlegt að þegar maður er í sjúklegu þunglyndi þá er maður hrikalega fyndinn/hlægilegur/sorglegur, vonandi skiljið þið hvað ég er að meina. Þetta er svo sannarlega ekki meint neikvætt, þvert á móti. Maður er svo uppfullur af ranghugmyndum, fullur af sjálfsásökunum, sjálsmyndin í svo miklu ólagi, sjálfstraustið nákvæmlega ekkert. Maður er í svo rosalegum kassa, sér ekkert út fyrir hann, sér ekkert jákvætt, allt er svo ömurlegt. Jafnvel fyndnustu brandarar eru það leiðinlegasta sem maður veit um. Maður dettur inn í ótrúlega skrýtinn heim sem er fullur af ranghugmyndum. Í raun má segja að ekkert í þeim heimi eigi við rök að styðjast. Maður sér ekkert gott. Jafnvel uppáhaldsmaturinn manns bragðast illa. Brad Pitt er ekki einu sinni sexý!

Dæmigerð niðursveifla hjá mér byrjaði kannski ekki á öðru en því að einhver sem ég bauð góðan daginn, sem gat verið hver sem er, hvar sem er og hvenær sem er, bauð mér ekki góðan daginn á móti. Hausinn á mér fór á hvolf og ég fór að hugsa allt það versta. "Hvað hafði ég gert af mér nú? Gerði ég eitthvað rangt? Djöfull er ég ömurleg! Af hverju bauð hann/hún ekki góðan daginn?" Allar þessar ímynduðu hugsanir leiddu svo til þess að ég fór að efast um sjálfa mig og á innan við hálftíma kannski var ég orðin ógeðslega ljót, heimsk, feit, bólugrafin, leiðinleg, frek og útskúfuð frá samfélaginu. Ekki þess virði fyrir neinn að svo mikið sem líta í áttina til mín. Ég fór í rusli í vinnuna, læddist meðfram veggjum svo enginn myndi nú „þurfa“ að verða á vegi mínum af því að ég var svo ógeðsleg. Ég bauð kannski góðan daginn þegar ég mætti, en sagði svo varla aukatekið orð meira allan daginn, nema ég nauðsynlega þyrfti. Og það fyndna er að allan daginn var ég svo sár innan í mér, hugsaði og hugsaði um hvað ég væri ömurleg, enginn vildi tala við mig því ég væri svo leiðinleg, ömurleg, ljót, feit. Blabla. Sat gráti nær og beið eftir því að vinnudagurinn myndi klárast svo ég kæmist heim og gæti lokað, læst, dregið fyrir og haldið öllum úti. Þá þyrfti enginn að sjá mig.

Svona beisikklí var þetta. Ég kom svo við í búðinni á leiðinni heim, keypti djöfuldóm af einhverju til að borða því ég þurfti að refsa mér fyrir að vera svona ömurleg og þörfin fyrir átköst og uppköst var gríðarleg. Ég hélt svo að allt yrði gott ef ég myndi loka mig af heima, enginn þyrfti að sjá mig né heyra og ég bara næði að verða grönn (sko, ég var grönn, sá það bara ekki sjálf þá, en hef séð myndir eftirá og já, ég var grönn). Ég hélt í alvörunni að allt myndi lagast bara ef ég yrði grönn. 

Oft entist ég heila vinnuviku í þessum pakka og lá svo heima alla helgina í biluðu þunglyndi. En börnin voru alltaf hjá mér og ég náði mér alltaf á endanum upp. Við vorum miklir félagar, ég og börnin, og það var gaman hjá okkur þremur saman. Í hvert einasta skipti þegar ég var að rísa upp úr lægð þá gat ég horft yfir dagana á undan og gert á ákveðinn hátt grín að sjálfri mér – ekki neikvætt grín, heldur jákvætt, því það er alveg rosalegt hvað þetta er sjúkt.

Ég veit ekki hvað ég er búin að skrifa margar samtalsbækur í huganum. Ég gæti ímyndað mér að þessi bókaflokkur teldi kannski eittþúsund bindi eða svo. Þessi samtöl átti ég í huganum við hina og þessa manneskjuna, ímynduð samtöl þar sem mér fannst ég verða að verja sjálfa mig og afsaka hvað ég væri ömurlega ljót og feit og leiðinleg og asnaleg. Í sumum samtölunum var ég voða vígreif, sagði mína meiningu, mína skoðun, segja ef mér sárnaði. En ég sagði samt aldrei neitt upphátt. Ég bar harm minn hlóðlega.

Og vitið þið – á sama tíma og þetta er ofboðslega sorglegt, þá er þetta er líka fyndið. Það er mjög skondið að horfa afturá bak í tímann og velta þessu tímabili fyrir sér. Mikið ofboðslega var ég veik. Ekki hlægilegt en kaldhæðnislega fyndið. Ég get hlegið að sjálfri mér. En að sjálfsögðu myndi ég ekki hlæja að öðrum – þú hlærð að þér, ég hlæ að mér. Þetta er svo ofboðslega mikið rugl. Ég hef reynt að kenna stelpum sem hafa fengið ráðleggingar hjá mér, að hafa húmor fyrir sjálfum sér. Það er mikið atriði að geta haft húmor fyrir sjálfum sér. Jákvæðan, sanngjarnan og heilbrigðan húmor.

Það er svo skelfilegt að hugsa til baka og sjá fyrir sér þennan veika einstakling. Það er mikil lukka sem hefur fylgt mér og góðar vættir hafa greinilega vakað yfir mér því mér tókst að halda lífi í gegnum þennan hræðilega tíma. Í dag lít ég á mig sem sigurvegara, ég lifði af gríðarlegt þunglyndi og lífshættulegan geðrænan sjúkdóm sem því miður sigrar of marga sem af honum þjást.

Sveiflurnar eru rosalegar. Sem dæmi um sveiflur þá voru til dæmis föt sem ég hafði keypt í einhverri uppsveiflunni allt í einu orðin svo hryllilega ljót og hálfvitaleg að það var komin þessi fína nýja ástæða til að ásaka sjálfa mig og hakka mig í spað. "Hvernig gastu verið svona ógeðslega mikill hálfviti að halda að þú gætir notað svona föt? Hvernig datt þér í hug að kaupa þetta?" Og allt eftir því.

Kannist þið við einhverja svona líðan? Að skammast og rífast og niðurlægja ykkur sjálfar út af hverju sem er? Endalaust? Finna nýjar og nýjar ástæður í sjálfsásakanir og niðurrif?

Spor í rétta átt

Spor í rétta átt verða stigin í smáum skrefum og það er ekkert annað en ögrun á okkur sjálfar. Þegar ég tala um Spor í rétta átt þá má alveg líka tala um bataferli. Spor í rétta átt eru þín spor – í réttu áttina fyrir þig. Það er ekkert víst að sporin í réttu áttina fyrir mig séu sporin í réttu áttina fyrir þig :)

Spor í rétta átt eru þau spor sem þú ákveður að stíga. Sporin sem þú stígur í áttina frá óreglulegu mataræði, óreglulegri hreyfingu, of stórum matarskömmtum, sporin frá því að hugsa ekki nægjanlega vel um sjálfa þig. Sporin þín, leiðin þín í átt að betra lífi.

Allt eru þetta spor í rétta átt. Sporin í áttina að þinni vellíðan. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá erum það víst elskulegu við sjálfar sem þurfum að bera ábyrgðina á því að okkur sjálfum líði vel. Við erum við stjórnvölinn. Það fær sér enginn einu sinni á diskinn fyrir þig, það er enginn sem getur mætt í ræktina fyrir þig. Það getur enginn sagt þér hvernig þú átt eða átt ekki að vera. Það getur enginn nema þú stjórnað þínu lífi, þínum tilfinningum og þínum viðbrögðum. Þetta er þitt líf, þín ákvörðun, þín ábyrgð.

Í bata ferlinu mínu las ég nokkur ljóð sem opnuðu augun mín. Ég man ekki hvað stelpan heitir sem skrifaði ljóðin en ég fann þau á http://frontpage.simnet.is/hugskot/  á sínum tíma. Yndislega skemmtilega skrifuð ljóð og ég fann mig algjörlega tilfinningalega í þeim mörgum:

Ósýnilegur                                                   

Þú getur orðið ósýnilegur                               
vegna eigin minnimáttarkenndar.                  

Þú getur hreinlega horfið                               
og misst alla útgeislun.

Þú getur orðið grár og daufur
eins og lítil mús
vegna þinnar eigin
niðurdrepandi skoðunar
á sjálfum þér.

Það tekur enginn eftir þér!
þú skilur ekkert í því!
Þú ert vonsvikinn og hissa,
því enginn veitir þér athygli!

Hvernig eiga aðrir að sjá
það sem alls ekki er til staðar
það sem læðist meðfram veggjum,
laumast út í horn (í hljóðri bæn)
og biðst stöðugt afsökunar á tilveru sinni?

 

Góða helgi,

knús og kærleikskveðja

Elísa Berglind

18.03.2013 23:36

Að æfa skemmtilega líkamsrækt

Til þess að geta tekist á við lífið og þau hlutverk sem okkur eru falin og okkur ætluð, á sem bestan hátt, þá þurfum við að lifa heilsusamlegu lífi, sátt við okkur sjálf og aðra í kringum okkur. Líkami okkar og sál eru samtvinnuð og til að annað virki sem skyldi þarf hitt að vera í lagi. Eitt allra mesta heilsufarsvandamál vestrænna þjóða í dag er offita og streita og er vinnutengd streita eitt stærsta og mesta vandamál sem fyrirtæki glíma við.

Líkami og sál eru samtvinnuð og tengslin á milli eru ótvíræð. Hugurinn hefur áhrif á líkamann og öfugt. Líkamleg vellíðan er meiri ef hugarfarið er jákvætt. Þegar lífið einkennist af streitu og vanlíðan geta líkamleg einkenni blossað upp,  til dæmis má nefna magaverk og höfuðverk.

Til er ágætt spakmæli sem segir: „Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag þá er ekki víst að heilsan hafi tíma fyrir þig á morgun“. Það má í raun segja að mikill sannleikur sé í þessum orðum. Það getur verið orðið of seint á morgun að ætla að sinna heilsunni. Heilsan er eitt það allra dýrmætasta sem einstaklingur á og heilsuhraustur einstaklingur er ein dýrmætasta auðlind hvers fyrirtækis.

Markmið líkamsræktar getur verið margþætt. Sumir stunda líkamsrækt til að keppa að ákveðnu marki, ætla sér að taka þátt í keppnum og æfa því stíft. Sumir stunda líkamsrækt sem lið í því að grenna sig. Sumir stunda líkamsrækt til þess að styrkja líkamann og bæta almenna líðan. Áherslurnar geta verið mismunandi og eitt markmiðið þarf ekki að útiloka annað.

Oft er líkamsrækt of mikið tengd því að komast í hörku form eða missa ákveðinn fjölda kílóa. Að sjálfsögðu er hægt að nota líkamsrækt í þessu skyni en margir gleyma aðal atriðinu með líkamsrækt sem er það að mátuleg líkamsrækt eykur bæði andlega og líkamlega líðan. Þeir sem vinna kyrrstöðuvinnu og hreyfa sig lítið eða einhæft yfir daginn, þurfa nauðsynlega að fá fjölbreytta hreyfingu einhvern tíma dagsins til þess að koma í veg fyrir fylgikvilla hreyfingarleysis eins og vöðvabólgu, stirðleika, mæði við minnstu áreynslu, stoðkerfis-, hjarta- og æðasjúkdóma, þunglyndi og svo mætti lengi telja.

Tegund hreyfingar skiptir ekki öllu máli. Aðalatriðið er að komast af stað, hafa markmiðið mátulegt og gera það sem þér finnst skemmtilegt. Lítil hreyfing er betri en engin hreyfing. Það er betra að fara út í göngutúr í 10 mínútur heldur en að sitja heima og gera ekki neitt. Það er betra að taka stigann einu sinni og sleppa lyftunni. Að standa upp frá skrifborðinu af og til og teygja sig er betra en að sitja allan daginn. Til þess að þjálfa hjarta- og æðakerfið þarf að ná púlsinum upp. Það er hægt með hvaða röskri hreyfingu sem er.

Veldu þér þá hreyfingu sem þér finnst skemmtileg og skoðaðu hvar hægt er að skjóta henni inn í daglega lífið. Hreyfingin þarf ekki alltaf að vera sú sama. Það er hægt að taka 20 mínútna gönguferð einn daginn, sund annan dag og spila badminton þann þriðja. Eða eitthvað allt annað; fara út að hjóla með börnunum einn daginn, skjótast í jóga í hádeginu nokkrum dögum síðar og ganga með saumaklúbbnum á kaffihús í lok vikunnar.

Aðalatriðið er að setja hreyfinguna inn sem jafn sjálfsagðan hluta af daglega lífinu eins og að bursta tennurnar. Ekki fara af stað með látum og ætla sér allt of mikið. Settu þér raunhæf markmið og auktu lífsgæði þín með mátulegri hreyfingu.

Gerðu hreyfinguna að skemmtilegum punkti í lífi hvers dags. Lausnin er oftar en ekki nær okkur en við höldum. Stattu upp og berðu þig eftir lausninni. Það getur enginn gert það fyrir þig. Þú ein berð ábyrgð á þér sjálfri og þinni líðan.

Með kærleikskveðju,

 

 

13.03.2013 17:10

Að sættast við sjálfa þig eins og þú ert

Í vor lögðu Rósirnar upp með nokkur göfug og raunhæf markmið að leiðarljósi. Eftirtalin markmið voru meðal annars á markmiðalistanum:

·         að setja okkur sjálfar í fyrsta sæti

·         að efla sjálfstraustið

·         að sættast við okkur eins og við erum

·         að æfa skemmtilega líkamsrækt

·         að æfa í uppbyggjandi félagsskap

·         að taka eitt skref í einu

·         að neyta fjölbreyttar fæðu 4x á dag

·         að fá okkur einu sinni á diskinn

·         að sleppa narti á milli mála

·         að breyta hugarfarinu

·         að hugsa jákvætt og rökrétt

Nú er komin ný vika og með hverri nýrri viku tökum við nýja hugsun og nýtt markmið til athugunar. Markmið þessarar viku er: „að sættast við sjálfa þig eins og þú ert!“ Já, ekki einfalt mál – en ákaflega verðugt umhugsunarefni :)

 Við konur erum ótrúlegar þegar kemur að því að sættast við okkur eins og við erum. Það er bara eins og margar okkar neiti að horfast í augu við sjálfa sig. Hver hefur ekki lent í því að óska þess að vera hávaxnari, lágvaxnari, feitari, mjórri, með blá augu en ekki brún eða öfugt. Vera ekki með perulaga vöxt, vera ekki mittislausar, vera ekki með mjaðmir, vera með breiðar mjaðmir. Þetta er líkamlega hliðin og okkar eigið ósætti. Svo getum við talað um andlegu hliðina. Hver hefur ekki lent í því að óska þess að vera hláturmildari, vera ekki svona hláturmild, vera skemmtileg, óska þess að vera eins og þessi eða eins og hin. Hver hefur ekki óskað þess að vera einhver allt önnur en hún er, allt öðruvísi en hún er?

Þetta er mjög skondið því mjög margt af því sem vildum hafa öðruvísi eru hlutir sem við getum alls ekki gert neitt við. Við getum til dæmis ekki gert neitt við því að vera með brún augu en ekki blá, vera með breiðar mjaðmir, vaxnar eins og pera eða hlédrægar, hláturmildar, feimnar og hvað þetta nú allt er. Það er alveg sama hversu heitt við biðjum, hversu mjög við grátum, spörkum, lemjum, kremjum eða níðumst á okkur sjálfum – við getum ekki breytt því hvernig við vorum skapaðar. Við erum eins og við erum af því að við vorum skapaðar þannig. Engar tvær manneskjur eru eins – sem er kannski bara eins gott – því þá veistu að þú er einstök.

Það má segja að þessi ósk okkar um að vilja vera öðruvísi en við erum sé byggð á hræðslu okkar og ótta við höfnun. Höfnunartilfinning er ein versta tilfinning sem við getum upplifað. Tilfinning sem er náskyld höfnun er skömm, tilfinningin um að eitthvað sé að okkur sem manneskju. Það að upplifa sig öðruvísi en aðrir og að vera ekki eftirsóknarverðar. Það er samt undarlegt til þess að hugsa að fólkið sem við viljum líkjast er líka að glíma við sömu tilfinningar og við. Þau vilja vera öðruvísi – þau vilja jafnvel vera eins og við.

Oft á mínum veikustu árum var mér hrósað fyrir alla skapaða hluti en ég gaf mér aldrei tækifæri til að virða slík hrós og þakka fyrir þau. Ég kaus að líta svo á að fólkið sem hrósaði mér væri að gera lítið úr mér eða sýna mér kurteisi með því að segja svona fallegt við mig. Að það væri einhver skyldurækni eða vorkunn sem byggi að baki hverju hrósi. Það var alveg sama hversu vel mér gekk, mér tókst alltaf, já ALLTAF, að finna eitthvað sem betur hefði mátt fara. Alveg sama þótt ég hefði svoleiðis nánast gengið frá sjálfri mér dauðri til að gera hlutina eins vel og mér frekast var unnt – ég fann alltaf eitthvað að. Alltaf var eitthvað sem ég hefði átt að segja öðruvísi, gera öðruvísi, skrifa öðruvísi, horfa öðruvísi. Alveg sama hvað. Ég gat ekki sætt mig við að vera eins og ég var. Fyrir um 7 árum síðan hóf ég svo bataferlið. Ég var loksins tilbúin til að hlusta og sætta mig við að ég hefði ekki stjórn á mínu lífi. Ég var gjörsamlega vanmáttug gagnvart sjálfri mér og vissi hvorki upp né niður hvað sjálfa mig varðaði. Ég gekk til geðlæknis vikulega í marga mánuði, svo mánaðarlega í 2 ár. Síðan endrum og sinnum. Ég náði sátt við sjálfa mig á 3-4 árum með því að vinna hörðum höndum að því að snúa neikvæðum hugsunum yfir í jákvæðar með hjálp hugrænnar atferlismeðferðar. Þetta er hægt og frelsið sem fæst með heiðarlegri sjálfsvinnu er frábært.

Gott sjálfstraust felst í því að kunna að meta sjálfan sig eins og maður er, með öllum þeim kostum og göllum sem maður hefur. Okkur öllum var gefin sjálfsvitund í vöggugjöf. Sjálfsvitundin spyr okkur spurninga eins og: „Hvernig manneskja vil ég vera?“, „Hvernig lífi vil ég lifa?“, Hvað þarf ég að gera til að vera heilsteypt manneskja?“, „Get ég verið stolt af ákvörðunum mínum og gjörðum?“, „Leitast ég við að gera það sem ég get á hverjum degi til að mér líði sem best?“, „Rækta ég hæfileika mína og mína góðu eiginleika?“, „Veit ég hver ég er og hvaða manneskju ég hef að geyma?“, Veit ég hvað ég vil og hvað mér finnst?“

Hversu heiðarlega getur þú svarað þessum spurningum?

Kortleggðu veikleika þína og styrkleika. Skrifaðu þá niður á blað og skoðaðu vel það sem þú skrifaðir. Það er alltaf erfiðara í upphafi að finna styrkleikana hjá sjálfum sér. Samt, ef vel er að gáð, þá höfum við miklu fleiri styrkleika en veikleika. Með því að skrifa niður styrkleikana og veikleikana getum við fengið góða mynd af því hvernig við sjáum okkur sjálfar. Ef þér gengur illa að finna styrkleika, skrifaðu þá niður eitthvað af því sem þú hefur heyrt annað fólk segja við þig og hrósa þér. Suma veikleika þína geturðu unnið með og gert að styrkleikum, aðra þarftu að sætta þig við og læra að lifa með þeim. Þeir eru jú hluti af þér og gera þig að þeirri manneskju sem þú ert og vilt vera. Ef þú ert ekki sátt við sjálfa þig nærðu ekki að njóta lífsins og ef þú getur ekki notið lífsins leitarðu á önnur mið eftir sátt. Þær leiðir sem verða fyrir valinu með þeim hætti eru yfirleitt kostnaðarsamar heilsu okkar, bæði andlegri og líkamlegri.

Æfðu þig í æðruleysisbæn AA samtakanna:

„Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli. Þolinmæði við hluti sem taka tíma, þakklæti fyrir það sem ég hef. Viðþol við ströggli annarra, frelsi til að lifa án takmarkana fortíðar minnar. Hæfileika til að þekkja ást þína til mín og ást mína til annarra og kraft til að standa upp og reyna aftur þó það virðist vonlaust.“

Lausnin er oftar en ekki nær en þú heldur. Stattu upp og berðu þig eftir lausninni. Það getur enginn gert það fyrir þig. Þú berð ábyrgð á þér sjálfri og þinni líðan.

Lífið er stórfengleg gjöf. Njótum.

 

Elísa Berglind

 

11.02.2013 11:13

Fjögur mikilvæg atriði

Við verðum stöðugt að næra líkamann á því sem hann þarfnast til að endurnýja sig . Góð næring er nauðsynleg og að borða oft og þá minna í einu gefur okkur jafnari blóðsykur og heldur okkur í jafnvægi út daginn. Við öðlumst meiri orku og afköstum meiru. Góð næring er jafn nauðsynleg og góð líkamsrækt. Ef við nærumst ekki nóg þá höfum við ekki næga orku. Rétt eins og við getum ekki keyrt bílinn okkar þegar það vantar á hann bensín.

Þegar við nýtum daginn í að borða jafnt og þétt þá höldum við blóðsykrinum í lagi og okkur gengur betur að halda okkur frá sætindum og því að borða of mikið. Löngun í sykur og sætindi minnkar til muna þegar við breytum mataræðinu á þennan hátt. Minnkandi neysla á sykri og sætindum bætir heilsu okkar á allan hátt, minnkar stress, andlega vanlíðan, þreytu, slen, höfuðverk, meltingartruflanir og svona mætti lengi telja. Vatnsdrykkja hjálpar mjög mikið til líka.

Þú munt komast upp á lag með það að njóta. Njóta þess að hreyfa þig og njóta þess að borða. Þú munt læra að setja þér markmið og fara eftir þeim. Það eina sem þú þarft er virkilegur VILJI til að gera það sem þú ætlar þér og þú þarft að TRÚA því að þetta sé hægt.

Það gerir þetta enginn fyrir þig. Þetta er þitt verk. Það er mjög gott fyrir okkur að tileinka okkur fjögur lykilorð:

  • Þolinmæði
  • Jákvæðni
  • Bros
  • Meðvitund

Þolinmæðin er grundvöllurinn

Skyndilausnir virka aldrei. Markmiðin sem þú setur þér er langtímaferli, það er lífsstíllinn sem þú ætlar að tileinka þér til frambúðar. Markmiðin eru ekki sex eða níu vikna kúr. Þú vilt varanlegan árangur. Þú þarft líka að muna að konur eru misjafnar eins og þær eru margar og ná misjöfnum árangri á mislöngum tíma. Þú varst lengi að byggja upp þinn fyrri lífsstíl – þú ert því ekki aðeins einn dag að læra að breyta honum til baka. Þú munt eiga einhver skref afturábak, en það er allt í lagi því þú veist að þú getur alltaf staðið upp aftur og haldið áfram. Við eigum allar okkar slæmu daga og við eigum allar okkar góðu daga líka. Sem betur fer þá eru nú góðu dagarnir yfirleitt fleiri. Gefðu þér tækifæri á að lifa lífinu lifandi. Það er útilokað að ætlast til þess að allir dagar séu dásamlega góðir.

Lyftu andanum upp þrátt fyrir slæman dag. Gerðu allt sem þú mögulega getur til að láta daginn í dag verða eins góðan og hann mögulega getur orðið.

Jákvæðni er lykillinn

Allt sem þú gerir byggist upp á jákvæðu hugarfari. Trú á þig sjálfa byggist á jákvæðu hugarfari. Það er með hreinum ólíkindum hvað líf okkar getur breyst og einhvern veginn allt orðið auðveldara aðeins við það eitt að snúa neikvæðu hugarfari upp í jákvætt. Það þarf aðeins eina jákvæða hugsun til að hrekja heilan her af neikvæðum hugsunum á braut.

Það reynir oft á andlegu hliðina þegar við erum að breyta til. Það eru ansi róttækar breytingar sem einstaklingur stendur frammi fyrir þegar hann ætlar að breyta um lífsstíl. Hugarfarið ber okkur samt alltaf hálfa leið. Breyttu hugsun þinni og um leið muntu breyta heimi þínum.

Allt sem við gerum krefst þess af okkur að við hugum að okkar eigin hugarfari. Það skiptir engu máli hvað öðrum finnst eða hvernig aðrir eru - það eru okkar eigin viðhorf, hugsanir og tilfinningar sem skipta máli. Við þurfum að reyna að halda í jákvæðnina. Verkefnið er spennandi og krefjandi en umfram allt gefandi.

Bros er smitandi

Brostu og til þín verður brosað á móti. Það er næstum því hægt að ganga út frá því sem vísum hlut. Brostu framan í þína eigin spegilmynd á hverjum morgni, horfðu á þig í speglinum og brostu. Þú getur ekki trúað því hversu mikil áhrif það getur haft á það hvernig dagurinn þinn mun verða.

Meðvitund er mikilvæg

Vertu meðvituð um það sem þú ert að gera og takast á við. Það að hafa hugann við efnið getur skipt sköpum fyrir þann árangur sem þú munt ná. Hafðu hugann við markmiðin þín því það skiptir miklu máli. Vertu með hugann við að borða jafnt og þétt. Vertu með hugann við það sem þú borðar. Vertu með hugann við að hreyfa þig reglulega. Vertu með hugann við að fá næga hvíld, veittu sjálfri þér næga athygli og veittu sjálfri þér nægan kærleika.

 

Þú ert það dýrmætasta sem þú átt. Mundu - það er ekkert til sem heitir vandamál bara lausnir

 

 


Kærleikskveðja til ykkar

 

Knús, Berglind

 

29.01.2013 23:08

Ég ætla að lifa lífinu lifandi

 

Í dag er nýr dagur í frábæra lífinu mínu

Ég byrja eða held ótrauð áfram breytta lífsstílnum mínum í dag. Ég ætla að sætta mig við fortíðina og líta á hana sem nauðsynlegan hluta af mér og einstaka reynslu sem ég nýti mér framvegis í þeim eina tilgangi að gera mig sterkari.

Allir góðir hlutir koma til mín í dag. Ég ætla að vera hugrökk og láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Ég ætla að taka einn dag í einu.

Ég er þakklát fyrir að vera á lífi. Lífið er yndislegt ef ég læt ekkert aftra mér frá því að njóta þess.

Ég sé fegurð alls staðar í kringum mig. Ég lít í kringum mig og sé fegurð fjalla, trjáa, mína eigin fegurð, fegurð fjölskyldunnar minnar, fegurð lífsins. Lífið er fegurð.

Ég er full af eldmóð og finn tilgang í lífi mínu. Það er ástæða fyrir því að ég fæddist. Ég ætla að njóta þess að vera til.

Ég gef mér tíma til að hlæja og brosa á hverjum degi. En ég ætla líka að muna að það koma dagar þegar allt virðist ömurlegt. Þá ætla ég ekki að refsa mér fyrir að vera niðurdregin. Ég ætla að muna að niðursveiflan þarf ekki að vera löng og ég kann leiðir til að stytta hana.

Ég er vakandi og ég er lifandi. Ég ætla að gera það sem ég get til að halda því áfram.

Ég einblíni á allt það góða í lífinu, umhverfinu og þakka fyrir allt. Ég er ákaflega þakklát fyrir allt sem ég hef. Þegar ég hugsa um allt sem ég hef í kringum mig og alla möguleikana sem við mér blasa þá er ég þakklát. Ég ætla líka að muna að vera þakklát fyrir allt sem ég hef fengið að reyna. Reynslan hefur mótað mig og styrkt mig.

Ég ætla að hafa frið innra með mér og vera sátt við sjálfa mig og allt í kringum mig.

Ég ætla að elska sjálfa mig og njóta þess að vera ég, vera með mér og gera það sem ég get fyrir sjálfa mig svo mér líði vel áfram.

Ég er frjáls til að vera ég sjálf og ég ætla að muna hve frelsið til að vera ég sjálf er dýrmætt.

Ég er einstök manneskja. Engin önnur manneskja er eins og ég.

Ég er þakklát fyrir að vera ég.

Ég ætla að búa mér til raunhæf markmið til að geta gert líf mitt eins og ég vil hafa það.

Ég ætla að taka lítil skref í einu og horfa á einn dag í einu.

Deginum í gær get ég ekki breytt, hann er fortíð, hann er búinn og farinn. Ég get lært af honum og tileinkað mér með skynsemi og þakklæti það sem miður fór til að geta gert betur. Ég get litið á allt það góða sem gerðist og nýtt mér það sem lærdóm til að halda áfram að gera vel. Morgundagurinn er framtíð, óráðin gáta sem ég get ekki séð hvernig verður og get því ekki ákveðið hvernig verður.

En það sem gerist í dag er nútíð. Ég get ráðið því. Ég get haft áhrif á það sem ég geri í dag, það sem ég geri núna. Það ætla ég að gera. Ég lifi fyrir daginn í dag og geri mitt allra besta til að dagurinn í dag verði besti dagurinn minn.

 

29.01.2013 22:21

Orð dagsins: 29. janúar 2013

Það sem þú gerir í dag er mikilvægt vegna þess að þú lætur heilan dag í skiptum fyrir það. Þótt þú ferðist á heimsenda í leit að fegurðinni muntu ekki finna hana nema hafa hana meðferðis. Fegurðin býr í þér sjálfri.

29.01.2013 09:08

Vigtin - vinur eða óvinur?

Vigtin getur verið okkar helsti óvinur. Ef við einblínum um of á vigtina getur það tafið ferðalag okkar á leið til betra lífs og bættari lífsstíls. Við setjum okkur takmark um að léttast um x-mörg kíló á x-löngum tíma. Svo kemur að vigtunardegi og vigtin sýnir ekki það sem við viljum sjá. Hvað gerist? Jú, við verðum daprar, leiðar, sjokkeraðar, brjálaðar, vonsviknar og svo framvegis. Þótt við ætlum okkur ekki að verða það – þá gerist það samt. Þessar tilfinningar skjóta upp kollinum jafnvel þótt við vitum að við höfum staðið okkur vel, höfum ekkert svindlað, höfum farið oft í ræktina, höfum misst sentimetra. Samt kemur þessi depurð og þetta vonleysi. Okkur finnst við vera á byrjunarreit.

En hugsið ykkur! Okkur líður líka svona þótt við vitum að við höfum gert það sem við ætluðum ekki, þótt við höfum ekki mætt í ræktina, ekki borðað hollt, ekki farið eftir markmiðinu. Það kemur sama tilfinningin. Við verðum samt vonsviknar, leiðar, sárar, daprar. Þetta er svo ótrúlega huglægt. Allt er þetta í höfðinu. Það skiptir í raun engu máli hvort við erum þetta mörg kíló eða ekki ef okkur líður ekki vel andlega og erum ekki ánægðar með okkur – sem er algjört grundvallaratriði.

Af hverju þurfum við að vera að vigta okkur ef það gefur okkur ekki neitt annað en sársauka? Gleymum vigtinni. Horfum í spegil. Að sjálfsögðu megum við vigta okkur – svo framarlega að við látum tölurnar á vigtinni ekki stjórna því hvernig okkur líður. Vigtin er alveg ágæt til síns brúks og getur alveg verið vinur - en hún má ekki ráða því hvernig okkur líður. Hún má ekki stjórna. Málið er að breyta um lífsstíl. Borða oftar, borða reglulega, borða minna í einu - einu sinni á diskinn :) Hreyfa sig reglulega :) Hugsa jákvætt. Setja sér markmið og taka lítil skref í einu. Ekki setja sér það háleit og stór markmið strax í upphafi að þau verði dæmd til að falla.

Ef við sjáum okkur feitar – þá sjá aðrir okkur örugglega feitar, ef við sjáum okkur fallegar – þá sjá aðrir okkur fallegar, ef við brosum framan í heiminn – þá brosir heimurinn framan í okkur. Finnum okkur góðar og haldbærar jákvæðar rökréttar hugsanir í staðinn fyrir þessar neikvæðu og órökréttu - sem eiga ekki rétt á sér. Við erum allar svo einstakar og svo yndislegar. Við vitum þetta og þurfum að trúa því. Enginn er eins og við. Það er það fallega við lífið.

Lífið er alltaf fullt af vandamálum. Það er best að horfast í augu við það og ákveða að vera hamingjusamur þrátt fyrir það. Hugsum í lausnum, það eru til lausnir við öllu.
 

28.01.2013 23:31

Breytingar

Það reynir oft á andlegu hliðina okkar þegar við erum að breyta til. Það eru ansi róttækar breytingar sem maður stendur frammi fyrir þegar maður ætlar að breyta um lífsstíl. Við megum alls ekki gleyma því að við munum eiga góða daga og við munum eiga slæma daga. Það reynir á jákvætt hugarfar þegar við breytum um en sagt er að hugarfarið beri okkur hálfa leið.

Það er margt sem getur verið að breytast hjá okkur. Ný verkefni, skóli, ný vinna, nýjar heimilisaðstæður, vinnumissir, missa fjölskyldumeðlim eða vin, veikindi, nýr fjölskyldumeðlimur, breytt mataræði, hreyfing. Börnin okkar eru að ganga í gegnum mismunandi þroskastig með tilheyrandi drama. Fullt sem getur verið að gerast, bæði jákvætt og neikvætt, auðvelt og erfitt, skemmtilegt og leiðinlegt. En við megum ekki láta deigan síga. Við megum ekki refsa okkur fyrir tilfinningar okkar. Við megum ekki fá sjokk af því að okkur líður rosalega vel og það er allt gaman hjá okkur en kannski ekki eins gaman hjá öðrum. Við megum heldur ekki fyllast biturð ef það gengur betur hjá öðrum heldur en okkur. Við þurfum að einbeita okkur að okkur sjálfum, gera það sem við gerum best, elska og elska okkur sjálfar án skilyrða.

Allt sem við gerum krefst þess af okkur að við hugum að okkar eigin hugarfari. Það skiptir engu máli hvað öðrum finnst eða hvernig aðrir eru - það eru okkar viðhorf, hugsanir og tilfinningar sem skipta máli. Við þurfum að reyna að halda sem best í jákvæða hugarfarið okkar. Oft eru okkar eigin fordómar að standa í vegi fyrir því að við náum árangri og komumst áfram. Við erum oft með svo skelfilega fordóma og ranghugmyndir um okkur sjálfar að það stoppar okkur í að komast lengra. Við þurfum að byrja á að vinna í hugarfarinu okkar. Við getum ekki breytt öðrum en við getum breytt okkur sjálfum. Það er vissulega barátta að reyna að viðhafa alltaf jákvætt hugarfar og ég hef sagt að það koma auðvitað slæmir dagar og það koma auðvitað góðir dagar. Við verðum að muna að refsa okkur ekki fyrir slæmu dagana. Það lenda allir í því að eiga slæma daga. Hins vegar þurfum við ekki að leggjast í kör þótt við eigum slæman dag. Ef við viðurkennum þessa slæmu daga þá gengur okkur betur og betur að komast í gegnum þá, þessum dögum fækkar og góðu dagarnir verða fleiri og yndislegir.

Tilfinningar og hugsanir tengjast oftar en ekki ákveðinni hegðun, stöðum, atburðum. Kannski fáum við einhverja hugsun upp í kollinn þegar við gerum eitthvað eða lendum í einhverju og það framkallar tilfinningu. Þessi tilfinning leiðir okkur svo í fleiri hugsanir um hitt og þetta. Þetta er vítahringur neikvæðra hugsana en það jákvæða við þetta er að þennan vítahring er hægt að rjúfa. Margar ykkar þekkja þetta örugglega.

Við munum komast upp á lag með það að njóta. Njóta þess að hreyfa okkur og njóta þess að borða. Við munum læra að setja okkur markmið og fara eftir þeim. Það eina sem við þurfum er virkilegur VILJI til að gera það og við þurfum að trúa því að þetta sé hægt. Það gerir þetta enginn fyrir okkur. Því miður.

Þolinmæðin er grundvöllurinn. Skyndilausnir virka aldrei. Markmiðin sem við setjum okkur eru langtímaferli, það er lífsstíllinn sem við ætlum að tileinka okkur til frambúðar, en ekki einhver sex eða níu vikna kúr. Við viljum varanlegan árangur. Við þurfum líka að muna að við erum misjafnar eins og við erum margar og okkur gengur þar af leiðandi misvel.

Við þurfum að muna að það er ekkert til sem heitir vandamál bara lausnir.

Hin stórkostlega fjölbreytni mannlegrar reynslu yrði fátæklegri og ekki eins gefandi ef ekki væru neinar hindranir að yfirstíga.

Sigurgleðin yrði ekki svipur hjá sjón ef við næðum toppnum án þess að fara fyrst um dimma dali....

 

28.01.2013 23:18

Markmið vor 2013

 

 

  • að setja okkur sjálfar í fyrsta sæti
  • að efla sjálfstraustið
  • að sættast við okkur eins og við erum
  • að æfa skemmtilega líkamsrækt
  • að æfa í uppbyggjandi félagsskap
  • að taka eitt skref í einu
  • að neyta fjölbreyttar fæðu 4x á dag
  • að fá okkur einu sinni á diskinn
  • að sleppa narti á milli mála
  • að breyta hugarfarinu
  • að hugsa jákvætt og rökrétt

 

Rósirnar heilsurækt

28.01.2013 23:03

Jákvætt hugarfar, lykill hamingjunnar

Eins og þið margar vitið þá hef ég ávallt haldið því fram að forsenda alls í okkar lífi byggist á hugarfarinu. Ef jákvætt hugarfar er með í för þá er lífið miklu auðveldara. Ragga Nagli spurði í einu blogginu sínu: „Veistu hvað er stærsti áhættuþátturinn fyrir ofátskast? Stíf einhæf megrun, neikvæðar hugsanir um eigið útlit og svarthvíta hetjan“. Þetta er bara nákvæmlega það sem málið snýst um. Neikvæðar hugsanir, ofurkvíði fyrir hinu ókomna, neikvætt sjálfsniðurrif.

Ég held að ég geti fullyrt að ég var heimsmeistari í neikvæðni, skertri sjálfmynd, sjálfspíningu og sjálfsniðurrifi fyrir nokkrum árum síðan. Eftir að hafa nánast drepið sjálfa mig í öfgum átröskunar, þunglyndis og niðurrifs þá hef ég lært að það er fátt jafn mikilvægt og eigin hugsanir. Það sem við hugsum á hverjum degi mótar líf okkar. Fyrsta hugsun dagsins getur mótað daginn sem rétt er að byrja. Enginn nema við sjálfar getum stjórnað því hvað og hvernig við hugsum. Það getur enginn sagt okkur hvað okkur á að finnast eða hvernig okkur á að líða. Við erum sjálfar örlagavaldar okkar eigin lífs.

Lífið er stórkostleg gjöf sem ég er svo heppin í dag að fá að njóta. Fyrir mér er það ekki sjálfgefið. Ég hefði svo auðveldlega getað hagað mér þannig að ég væri ekki hér í dag. Harkalega sagt, en samt satt. Að vera frjáls í höfðinu og í hjartanu er stórkostleg gjöf sem ég gaf sjálfri mér. Auðvitað á ég mína slæmu daga en þeim fer sífellt fækkandi.

Sú leið sem ég ákvað að fara fyrir um 7 árum síðan, þegar ég ákvað að ég ætlaði að lifa lífinu lifandi en ekki í fjötrum eigin neikvæðni er einfaldlega byggð á kenningum hugrænnar atferlismeðferðar. Að breyta neikvæðum hugsunum í jákvæðar. Virkar svo ofur einfalt, en ég ætla ekki, frekar en margir aðrir sem hafa náð að snúa við blaðinu, að ljúga og segja að þetta hafi ekki verið neitt mál. Þetta var stórmál, en borgaði sig svo sannarlega. Enn í dag er ég að glíma við neikvæðar hugsanir og oft stend ég sjálfa mig að því að rífa niður það sem ég geri. Gagnrýna í frumeindir það sem ég gerði, spyrjandi sjálfa mig af hverju ég gerði ekki eitthvað annað eða öðruvísi. Mér finnst mjög skondið að skoða sjálfa mig þegar ég fer í þennan ham. Það sem ég kann hins vegar í dag en kunni ekki áður er að skilgreina hugsanirnar, raða þeim saman og finna ástæðurnar fyrir þessu neikvæða. Oft er ástæðan ekki flóknari en sú að ég hef ekki borðað í marga klukkutíma eða nætursvefninn riðlaðist eitthvað. Ef ég verð svöng, borða ekki klukkutímum saman eða sef illa þá brotna varnir líkamans niður og ég verð ómöguleg, pirruð, leið. En það er ekki þar með sagt að ég sé aumingi eða geti ekki gert neitt rétt. Það er þetta sem ég kann í dag að skilgreina. Ég reyni af fremsta megni að hugsa í lausnum en ekki í vandamálum. Ef það kemur eitthvað upp á sem ég finn að ég ræð ekki alveg við þá staldra ég við og skilgreini það sem er að. Hvað get ég gert til að bæta ástandið? Ekkert sem ég gerði í gær get ég lagað í dag eða strokað yfir, ég veit ekkert um það sem mun gerast á morgun. Ég get hins vegar lagt mitt af mörkum í dag til að halda áfram að vera jákvæð og þakklát og ég get gert allt sem í mínu valdi stendur til að bæta það sem veldur mér vanlíðan. Kvíði, stress og vonleysi eru fylgdarsveinar sem ég vil ekki ganga með. Þess vegna vil ég finna lausnir við aðstæðum sem upp koma og valda mér vanlíðan.

Það er annað sem mér finnst svo merkilegt og það er sú staðreynd að ég hef val. Ég get valið hvort ég vil gera svona eða hinsegin. Ég get valið hvernig ég tekst á við aðstæður. Ég get valið hvernig ég bregst við því sem er sagt við mig og um mig. Ég get valið að vera hamingjusöm, glöð, jákvæð og bjartsýn. Ég get líka valið að vera það ekki. En hvernig verður lífið mitt ef ég vel að vera það ekki? Á þann stað hef ég valið að fara ekki aftur.

Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að ég hef sjaldan verið jafn „þykk“ og ég er í dag. Hins vegar held ég að mér sé líka óhætt að fullyrða að mér hefur aldrei liðið jafn vel í eigin skinni. Andlega er ég sterkari en ég hef nokkurn tímann verið og líkamlega er ég hraust. Þegar ég var í sem versta ástandinu, fjörutíuogeitthvað kíló þá leið mér hörmulega. Dóttir mín gæti örugglega ekki notað fötin sem ég notaði þá. Fötin sem ég á í dag eru eins og keypt í Belgjagerðinni í samanburði við fötin sem ég keypti á sínum tíma í barnadeildum fataverslananna (þar sem ég passaði varla í XS í kvenfatabúðum). Ég hef ekki hugmynd um hvað ég er þung í dag því á vigt hef ég ekki stigið í nokkur ár. Ég þarf að kaupa mér sífellt stærri föt en það er bara ekki að bögga mig. Ég er í góðu formi, andlega og líkamlega. Það er það sem skiptir öllu máli. Að lifa í sátt og samlyndi við mig sjálfa.

Ég er eins og ég er.

Hvernig líður þér í þínu skinni?

28.01.2013 22:40

Orð dagsins: 28. janúar 2013

Þótt eitthvað gangi ekki upp sem þú varst búin að ákveða, þýðir það ekki að nú sé allt ónýtt og ómögulegt. Þegar einar dyr lokast opnast aðrar og ný tækifæri bíða. Mikilvægasta stund dagsins er líðandi stund. Notum hana vel.

12.01.2013 11:37

Orð dagsins: 7. janúar 2013

Opnaðu hugann fyrir jákvæðum hugsunum og dyr tækifæranna opnast. Fylgdu hjartanu þangað sem það leiðir þig og leyfðu þér að blómstra í þinni eigin fegurð. Hamingja er samræmi milli þess sem þú hugsar, gerir og segir.

 

05.01.2013 17:04

Orð dagsins: 5. janúar 2013

Hugsaðu um daginn í dag sem fallega gjöf sem þér var gefin. Dagurinn í gær er liðinn og þú færð honum ekki breytt. Hafðu ekki áhyggjur af morgundeginum, gerðu þitt besta í dag og brostu.

Njóttu lífsins og fylltu það af kærleika

26.10.2012 11:33

Orð dagsins: 25. október 2012

Taktu þessi orð með þér inn í helgina elsku yndislega kona!

 

Að vera kona er flókið

og furðulegt, botnlaust

og bætandi. Að vera kona

er fallegt, gefandi og gott.

Þú ert kona, fagurt blóm

og þú þarft næringu.

Hugsaðu um sjálfa þig.

23.10.2012 12:32

Orð dagsins: 23. október 2012

Geymdu ekki bros dagsins í dag til morgundagsins! Lifðu í núinu, ekki lifa fyrir daginn í gær. Þolinmæðin er beisk, en ávextir hennar er sætir og góðir. Njóttu þeirra!

Lífið er yndislegt

Flettingar í dag: 496
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 1049
Gestir í gær: 127
Samtals flettingar: 278509
Samtals gestir: 39476
Tölur uppfærðar: 21.12.2024 13:42:08