Í vor lögðu Rósirnar upp með nokkur göfug og raunhæf markmið að leiðarljósi. Eftirtalin markmið voru meðal annars á markmiðalistanum:
· að setja okkur sjálfar í fyrsta sæti
· að efla sjálfstraustið
· að sættast við okkur eins og við erum
· að æfa skemmtilega líkamsrækt
· að æfa í uppbyggjandi félagsskap
· að taka eitt skref í einu
· að neyta fjölbreyttar fæðu 4x á dag
· að fá okkur einu sinni á diskinn
· að sleppa narti á milli mála
· að breyta hugarfarinu
· að hugsa jákvætt og rökrétt
Nú er komin ný vika og með hverri nýrri viku tökum við nýja hugsun og nýtt markmið til athugunar. Markmið þessarar viku er: „að sættast við sjálfa þig eins og þú ert!“ Já, ekki einfalt mál – en ákaflega verðugt umhugsunarefni :)
Við konur erum ótrúlegar þegar kemur að því að sættast við okkur eins og við erum. Það er bara eins og margar okkar neiti að horfast í augu við sjálfa sig. Hver hefur ekki lent í því að óska þess að vera hávaxnari, lágvaxnari, feitari, mjórri, með blá augu en ekki brún eða öfugt. Vera ekki með perulaga vöxt, vera ekki mittislausar, vera ekki með mjaðmir, vera með breiðar mjaðmir. Þetta er líkamlega hliðin og okkar eigið ósætti. Svo getum við talað um andlegu hliðina. Hver hefur ekki lent í því að óska þess að vera hláturmildari, vera ekki svona hláturmild, vera skemmtileg, óska þess að vera eins og þessi eða eins og hin. Hver hefur ekki óskað þess að vera einhver allt önnur en hún er, allt öðruvísi en hún er?
Þetta er mjög skondið því mjög margt af því sem vildum hafa öðruvísi eru hlutir sem við getum alls ekki gert neitt við. Við getum til dæmis ekki gert neitt við því að vera með brún augu en ekki blá, vera með breiðar mjaðmir, vaxnar eins og pera eða hlédrægar, hláturmildar, feimnar og hvað þetta nú allt er. Það er alveg sama hversu heitt við biðjum, hversu mjög við grátum, spörkum, lemjum, kremjum eða níðumst á okkur sjálfum – við getum ekki breytt því hvernig við vorum skapaðar. Við erum eins og við erum af því að við vorum skapaðar þannig. Engar tvær manneskjur eru eins – sem er kannski bara eins gott – því þá veistu að þú er einstök.
Það má segja að þessi ósk okkar um að vilja vera öðruvísi en við erum sé byggð á hræðslu okkar og ótta við höfnun. Höfnunartilfinning er ein versta tilfinning sem við getum upplifað. Tilfinning sem er náskyld höfnun er skömm, tilfinningin um að eitthvað sé að okkur sem manneskju. Það að upplifa sig öðruvísi en aðrir og að vera ekki eftirsóknarverðar. Það er samt undarlegt til þess að hugsa að fólkið sem við viljum líkjast er líka að glíma við sömu tilfinningar og við. Þau vilja vera öðruvísi – þau vilja jafnvel vera eins og við.
Oft á mínum veikustu árum var mér hrósað fyrir alla skapaða hluti en ég gaf mér aldrei tækifæri til að virða slík hrós og þakka fyrir þau. Ég kaus að líta svo á að fólkið sem hrósaði mér væri að gera lítið úr mér eða sýna mér kurteisi með því að segja svona fallegt við mig. Að það væri einhver skyldurækni eða vorkunn sem byggi að baki hverju hrósi. Það var alveg sama hversu vel mér gekk, mér tókst alltaf, já ALLTAF, að finna eitthvað sem betur hefði mátt fara. Alveg sama þótt ég hefði svoleiðis nánast gengið frá sjálfri mér dauðri til að gera hlutina eins vel og mér frekast var unnt – ég fann alltaf eitthvað að. Alltaf var eitthvað sem ég hefði átt að segja öðruvísi, gera öðruvísi, skrifa öðruvísi, horfa öðruvísi. Alveg sama hvað. Ég gat ekki sætt mig við að vera eins og ég var. Fyrir um 7 árum síðan hóf ég svo bataferlið. Ég var loksins tilbúin til að hlusta og sætta mig við að ég hefði ekki stjórn á mínu lífi. Ég var gjörsamlega vanmáttug gagnvart sjálfri mér og vissi hvorki upp né niður hvað sjálfa mig varðaði. Ég gekk til geðlæknis vikulega í marga mánuði, svo mánaðarlega í 2 ár. Síðan endrum og sinnum. Ég náði sátt við sjálfa mig á 3-4 árum með því að vinna hörðum höndum að því að snúa neikvæðum hugsunum yfir í jákvæðar með hjálp hugrænnar atferlismeðferðar. Þetta er hægt og frelsið sem fæst með heiðarlegri sjálfsvinnu er frábært.
Gott sjálfstraust felst í því að kunna að meta sjálfan sig eins og maður er, með öllum þeim kostum og göllum sem maður hefur. Okkur öllum var gefin sjálfsvitund í vöggugjöf. Sjálfsvitundin spyr okkur spurninga eins og: „Hvernig manneskja vil ég vera?“, „Hvernig lífi vil ég lifa?“, Hvað þarf ég að gera til að vera heilsteypt manneskja?“, „Get ég verið stolt af ákvörðunum mínum og gjörðum?“, „Leitast ég við að gera það sem ég get á hverjum degi til að mér líði sem best?“, „Rækta ég hæfileika mína og mína góðu eiginleika?“, „Veit ég hver ég er og hvaða manneskju ég hef að geyma?“, Veit ég hvað ég vil og hvað mér finnst?“
Hversu heiðarlega getur þú svarað þessum spurningum?
Kortleggðu veikleika þína og styrkleika. Skrifaðu þá niður á blað og skoðaðu vel það sem þú skrifaðir. Það er alltaf erfiðara í upphafi að finna styrkleikana hjá sjálfum sér. Samt, ef vel er að gáð, þá höfum við miklu fleiri styrkleika en veikleika. Með því að skrifa niður styrkleikana og veikleikana getum við fengið góða mynd af því hvernig við sjáum okkur sjálfar. Ef þér gengur illa að finna styrkleika, skrifaðu þá niður eitthvað af því sem þú hefur heyrt annað fólk segja við þig og hrósa þér. Suma veikleika þína geturðu unnið með og gert að styrkleikum, aðra þarftu að sætta þig við og læra að lifa með þeim. Þeir eru jú hluti af þér og gera þig að þeirri manneskju sem þú ert og vilt vera. Ef þú ert ekki sátt við sjálfa þig nærðu ekki að njóta lífsins og ef þú getur ekki notið lífsins leitarðu á önnur mið eftir sátt. Þær leiðir sem verða fyrir valinu með þeim hætti eru yfirleitt kostnaðarsamar heilsu okkar, bæði andlegri og líkamlegri.
Æfðu þig í æðruleysisbæn AA samtakanna:
„Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli. Þolinmæði við hluti sem taka tíma, þakklæti fyrir það sem ég hef. Viðþol við ströggli annarra, frelsi til að lifa án takmarkana fortíðar minnar. Hæfileika til að þekkja ást þína til mín og ást mína til annarra og kraft til að standa upp og reyna aftur þó það virðist vonlaust.“
Lausnin er oftar en ekki nær en þú heldur. Stattu upp og berðu þig eftir lausninni. Það getur enginn gert það fyrir þig. Þú berð ábyrgð á þér sjálfri og þinni líðan.
Lífið er stórfengleg gjöf. Njótum.
Elísa Berglind
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is