Rósirnar heilsurækt
Hugsaðu vel um líkama og sál. Settu sjálfa þig og þína heilsu í fyrsta sæti.

Færslur: 2013 Febrúar

11.02.2013 11:13

Fjögur mikilvæg atriði

Við verðum stöðugt að næra líkamann á því sem hann þarfnast til að endurnýja sig . Góð næring er nauðsynleg og að borða oft og þá minna í einu gefur okkur jafnari blóðsykur og heldur okkur í jafnvægi út daginn. Við öðlumst meiri orku og afköstum meiru. Góð næring er jafn nauðsynleg og góð líkamsrækt. Ef við nærumst ekki nóg þá höfum við ekki næga orku. Rétt eins og við getum ekki keyrt bílinn okkar þegar það vantar á hann bensín.

Þegar við nýtum daginn í að borða jafnt og þétt þá höldum við blóðsykrinum í lagi og okkur gengur betur að halda okkur frá sætindum og því að borða of mikið. Löngun í sykur og sætindi minnkar til muna þegar við breytum mataræðinu á þennan hátt. Minnkandi neysla á sykri og sætindum bætir heilsu okkar á allan hátt, minnkar stress, andlega vanlíðan, þreytu, slen, höfuðverk, meltingartruflanir og svona mætti lengi telja. Vatnsdrykkja hjálpar mjög mikið til líka.

Þú munt komast upp á lag með það að njóta. Njóta þess að hreyfa þig og njóta þess að borða. Þú munt læra að setja þér markmið og fara eftir þeim. Það eina sem þú þarft er virkilegur VILJI til að gera það sem þú ætlar þér og þú þarft að TRÚA því að þetta sé hægt.

Það gerir þetta enginn fyrir þig. Þetta er þitt verk. Það er mjög gott fyrir okkur að tileinka okkur fjögur lykilorð:

  • Þolinmæði
  • Jákvæðni
  • Bros
  • Meðvitund

Þolinmæðin er grundvöllurinn

Skyndilausnir virka aldrei. Markmiðin sem þú setur þér er langtímaferli, það er lífsstíllinn sem þú ætlar að tileinka þér til frambúðar. Markmiðin eru ekki sex eða níu vikna kúr. Þú vilt varanlegan árangur. Þú þarft líka að muna að konur eru misjafnar eins og þær eru margar og ná misjöfnum árangri á mislöngum tíma. Þú varst lengi að byggja upp þinn fyrri lífsstíl – þú ert því ekki aðeins einn dag að læra að breyta honum til baka. Þú munt eiga einhver skref afturábak, en það er allt í lagi því þú veist að þú getur alltaf staðið upp aftur og haldið áfram. Við eigum allar okkar slæmu daga og við eigum allar okkar góðu daga líka. Sem betur fer þá eru nú góðu dagarnir yfirleitt fleiri. Gefðu þér tækifæri á að lifa lífinu lifandi. Það er útilokað að ætlast til þess að allir dagar séu dásamlega góðir.

Lyftu andanum upp þrátt fyrir slæman dag. Gerðu allt sem þú mögulega getur til að láta daginn í dag verða eins góðan og hann mögulega getur orðið.

Jákvæðni er lykillinn

Allt sem þú gerir byggist upp á jákvæðu hugarfari. Trú á þig sjálfa byggist á jákvæðu hugarfari. Það er með hreinum ólíkindum hvað líf okkar getur breyst og einhvern veginn allt orðið auðveldara aðeins við það eitt að snúa neikvæðu hugarfari upp í jákvætt. Það þarf aðeins eina jákvæða hugsun til að hrekja heilan her af neikvæðum hugsunum á braut.

Það reynir oft á andlegu hliðina þegar við erum að breyta til. Það eru ansi róttækar breytingar sem einstaklingur stendur frammi fyrir þegar hann ætlar að breyta um lífsstíl. Hugarfarið ber okkur samt alltaf hálfa leið. Breyttu hugsun þinni og um leið muntu breyta heimi þínum.

Allt sem við gerum krefst þess af okkur að við hugum að okkar eigin hugarfari. Það skiptir engu máli hvað öðrum finnst eða hvernig aðrir eru - það eru okkar eigin viðhorf, hugsanir og tilfinningar sem skipta máli. Við þurfum að reyna að halda í jákvæðnina. Verkefnið er spennandi og krefjandi en umfram allt gefandi.

Bros er smitandi

Brostu og til þín verður brosað á móti. Það er næstum því hægt að ganga út frá því sem vísum hlut. Brostu framan í þína eigin spegilmynd á hverjum morgni, horfðu á þig í speglinum og brostu. Þú getur ekki trúað því hversu mikil áhrif það getur haft á það hvernig dagurinn þinn mun verða.

Meðvitund er mikilvæg

Vertu meðvituð um það sem þú ert að gera og takast á við. Það að hafa hugann við efnið getur skipt sköpum fyrir þann árangur sem þú munt ná. Hafðu hugann við markmiðin þín því það skiptir miklu máli. Vertu með hugann við að borða jafnt og þétt. Vertu með hugann við það sem þú borðar. Vertu með hugann við að hreyfa þig reglulega. Vertu með hugann við að fá næga hvíld, veittu sjálfri þér næga athygli og veittu sjálfri þér nægan kærleika.

 

Þú ert það dýrmætasta sem þú átt. Mundu - það er ekkert til sem heitir vandamál bara lausnir

 

 


Kærleikskveðja til ykkar

 

Knús, Berglind

 

  • 1
Flettingar í dag: 17
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 351
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 97941
Samtals gestir: 22275
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 02:08:26