Vigtin getur verið okkar helsti óvinur. Ef við einblínum um of á vigtina getur það tafið ferðalag okkar á leið til betra lífs og bættari lífsstíls. Við setjum okkur takmark um að léttast um x-mörg kíló á x-löngum tíma. Svo kemur að vigtunardegi og vigtin sýnir ekki það sem við viljum sjá. Hvað gerist? Jú, við verðum daprar, leiðar, sjokkeraðar, brjálaðar, vonsviknar og svo framvegis. Þótt við ætlum okkur ekki að verða það – þá gerist það samt. Þessar tilfinningar skjóta upp kollinum jafnvel þótt við vitum að við höfum staðið okkur vel, höfum ekkert svindlað, höfum farið oft í ræktina, höfum misst sentimetra. Samt kemur þessi depurð og þetta vonleysi. Okkur finnst við vera á byrjunarreit.
En hugsið ykkur! Okkur líður líka svona þótt við vitum að við höfum gert það sem við ætluðum ekki, þótt við höfum ekki mætt í ræktina, ekki borðað hollt, ekki farið eftir markmiðinu. Það kemur sama tilfinningin. Við verðum samt vonsviknar, leiðar, sárar, daprar. Þetta er svo ótrúlega huglægt. Allt er þetta í höfðinu. Það skiptir í raun engu máli hvort við erum þetta mörg kíló eða ekki ef okkur líður ekki vel andlega og erum ekki ánægðar með okkur – sem er algjört grundvallaratriði.
Af hverju þurfum við að vera að vigta okkur ef það gefur okkur ekki neitt annað en sársauka? Gleymum vigtinni. Horfum í spegil. Að sjálfsögðu megum við vigta okkur – svo framarlega að við látum tölurnar á vigtinni ekki stjórna því hvernig okkur líður. Vigtin er alveg ágæt til síns brúks og getur alveg verið vinur - en hún má ekki ráða því hvernig okkur líður. Hún má ekki stjórna. Málið er að breyta um lífsstíl. Borða oftar, borða reglulega, borða minna í einu - einu sinni á diskinn :) Hreyfa sig reglulega :) Hugsa jákvætt. Setja sér markmið og taka lítil skref í einu. Ekki setja sér það háleit og stór markmið strax í upphafi að þau verði dæmd til að falla.
Ef við sjáum okkur feitar – þá sjá aðrir okkur örugglega feitar, ef við sjáum okkur fallegar – þá sjá aðrir okkur fallegar, ef við brosum framan í heiminn – þá brosir heimurinn framan í okkur. Finnum okkur góðar og haldbærar jákvæðar rökréttar hugsanir í staðinn fyrir þessar neikvæðu og órökréttu - sem eiga ekki rétt á sér. Við erum allar svo einstakar og svo yndislegar. Við vitum þetta og þurfum að trúa því. Enginn er eins og við. Það er það fallega við lífið.
Lífið er alltaf fullt af vandamálum. Það er best að horfast í augu við það og ákveða að vera hamingjusamur þrátt fyrir það. Hugsum í lausnum, það eru til lausnir við öllu.
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is