Rósirnar heilsurækt
Hugsaðu vel um líkama og sál. Settu sjálfa þig og þína heilsu í fyrsta sæti.

Færslur: 2013 Janúar

29.01.2013 23:08

Ég ætla að lifa lífinu lifandi

 

Í dag er nýr dagur í frábæra lífinu mínu

Ég byrja eða held ótrauð áfram breytta lífsstílnum mínum í dag. Ég ætla að sætta mig við fortíðina og líta á hana sem nauðsynlegan hluta af mér og einstaka reynslu sem ég nýti mér framvegis í þeim eina tilgangi að gera mig sterkari.

Allir góðir hlutir koma til mín í dag. Ég ætla að vera hugrökk og láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Ég ætla að taka einn dag í einu.

Ég er þakklát fyrir að vera á lífi. Lífið er yndislegt ef ég læt ekkert aftra mér frá því að njóta þess.

Ég sé fegurð alls staðar í kringum mig. Ég lít í kringum mig og sé fegurð fjalla, trjáa, mína eigin fegurð, fegurð fjölskyldunnar minnar, fegurð lífsins. Lífið er fegurð.

Ég er full af eldmóð og finn tilgang í lífi mínu. Það er ástæða fyrir því að ég fæddist. Ég ætla að njóta þess að vera til.

Ég gef mér tíma til að hlæja og brosa á hverjum degi. En ég ætla líka að muna að það koma dagar þegar allt virðist ömurlegt. Þá ætla ég ekki að refsa mér fyrir að vera niðurdregin. Ég ætla að muna að niðursveiflan þarf ekki að vera löng og ég kann leiðir til að stytta hana.

Ég er vakandi og ég er lifandi. Ég ætla að gera það sem ég get til að halda því áfram.

Ég einblíni á allt það góða í lífinu, umhverfinu og þakka fyrir allt. Ég er ákaflega þakklát fyrir allt sem ég hef. Þegar ég hugsa um allt sem ég hef í kringum mig og alla möguleikana sem við mér blasa þá er ég þakklát. Ég ætla líka að muna að vera þakklát fyrir allt sem ég hef fengið að reyna. Reynslan hefur mótað mig og styrkt mig.

Ég ætla að hafa frið innra með mér og vera sátt við sjálfa mig og allt í kringum mig.

Ég ætla að elska sjálfa mig og njóta þess að vera ég, vera með mér og gera það sem ég get fyrir sjálfa mig svo mér líði vel áfram.

Ég er frjáls til að vera ég sjálf og ég ætla að muna hve frelsið til að vera ég sjálf er dýrmætt.

Ég er einstök manneskja. Engin önnur manneskja er eins og ég.

Ég er þakklát fyrir að vera ég.

Ég ætla að búa mér til raunhæf markmið til að geta gert líf mitt eins og ég vil hafa það.

Ég ætla að taka lítil skref í einu og horfa á einn dag í einu.

Deginum í gær get ég ekki breytt, hann er fortíð, hann er búinn og farinn. Ég get lært af honum og tileinkað mér með skynsemi og þakklæti það sem miður fór til að geta gert betur. Ég get litið á allt það góða sem gerðist og nýtt mér það sem lærdóm til að halda áfram að gera vel. Morgundagurinn er framtíð, óráðin gáta sem ég get ekki séð hvernig verður og get því ekki ákveðið hvernig verður.

En það sem gerist í dag er nútíð. Ég get ráðið því. Ég get haft áhrif á það sem ég geri í dag, það sem ég geri núna. Það ætla ég að gera. Ég lifi fyrir daginn í dag og geri mitt allra besta til að dagurinn í dag verði besti dagurinn minn.

 

29.01.2013 22:21

Orð dagsins: 29. janúar 2013

Það sem þú gerir í dag er mikilvægt vegna þess að þú lætur heilan dag í skiptum fyrir það. Þótt þú ferðist á heimsenda í leit að fegurðinni muntu ekki finna hana nema hafa hana meðferðis. Fegurðin býr í þér sjálfri.

29.01.2013 09:08

Vigtin - vinur eða óvinur?

Vigtin getur verið okkar helsti óvinur. Ef við einblínum um of á vigtina getur það tafið ferðalag okkar á leið til betra lífs og bættari lífsstíls. Við setjum okkur takmark um að léttast um x-mörg kíló á x-löngum tíma. Svo kemur að vigtunardegi og vigtin sýnir ekki það sem við viljum sjá. Hvað gerist? Jú, við verðum daprar, leiðar, sjokkeraðar, brjálaðar, vonsviknar og svo framvegis. Þótt við ætlum okkur ekki að verða það – þá gerist það samt. Þessar tilfinningar skjóta upp kollinum jafnvel þótt við vitum að við höfum staðið okkur vel, höfum ekkert svindlað, höfum farið oft í ræktina, höfum misst sentimetra. Samt kemur þessi depurð og þetta vonleysi. Okkur finnst við vera á byrjunarreit.

En hugsið ykkur! Okkur líður líka svona þótt við vitum að við höfum gert það sem við ætluðum ekki, þótt við höfum ekki mætt í ræktina, ekki borðað hollt, ekki farið eftir markmiðinu. Það kemur sama tilfinningin. Við verðum samt vonsviknar, leiðar, sárar, daprar. Þetta er svo ótrúlega huglægt. Allt er þetta í höfðinu. Það skiptir í raun engu máli hvort við erum þetta mörg kíló eða ekki ef okkur líður ekki vel andlega og erum ekki ánægðar með okkur – sem er algjört grundvallaratriði.

Af hverju þurfum við að vera að vigta okkur ef það gefur okkur ekki neitt annað en sársauka? Gleymum vigtinni. Horfum í spegil. Að sjálfsögðu megum við vigta okkur – svo framarlega að við látum tölurnar á vigtinni ekki stjórna því hvernig okkur líður. Vigtin er alveg ágæt til síns brúks og getur alveg verið vinur - en hún má ekki ráða því hvernig okkur líður. Hún má ekki stjórna. Málið er að breyta um lífsstíl. Borða oftar, borða reglulega, borða minna í einu - einu sinni á diskinn :) Hreyfa sig reglulega :) Hugsa jákvætt. Setja sér markmið og taka lítil skref í einu. Ekki setja sér það háleit og stór markmið strax í upphafi að þau verði dæmd til að falla.

Ef við sjáum okkur feitar – þá sjá aðrir okkur örugglega feitar, ef við sjáum okkur fallegar – þá sjá aðrir okkur fallegar, ef við brosum framan í heiminn – þá brosir heimurinn framan í okkur. Finnum okkur góðar og haldbærar jákvæðar rökréttar hugsanir í staðinn fyrir þessar neikvæðu og órökréttu - sem eiga ekki rétt á sér. Við erum allar svo einstakar og svo yndislegar. Við vitum þetta og þurfum að trúa því. Enginn er eins og við. Það er það fallega við lífið.

Lífið er alltaf fullt af vandamálum. Það er best að horfast í augu við það og ákveða að vera hamingjusamur þrátt fyrir það. Hugsum í lausnum, það eru til lausnir við öllu.
 

28.01.2013 23:31

Breytingar

Það reynir oft á andlegu hliðina okkar þegar við erum að breyta til. Það eru ansi róttækar breytingar sem maður stendur frammi fyrir þegar maður ætlar að breyta um lífsstíl. Við megum alls ekki gleyma því að við munum eiga góða daga og við munum eiga slæma daga. Það reynir á jákvætt hugarfar þegar við breytum um en sagt er að hugarfarið beri okkur hálfa leið.

Það er margt sem getur verið að breytast hjá okkur. Ný verkefni, skóli, ný vinna, nýjar heimilisaðstæður, vinnumissir, missa fjölskyldumeðlim eða vin, veikindi, nýr fjölskyldumeðlimur, breytt mataræði, hreyfing. Börnin okkar eru að ganga í gegnum mismunandi þroskastig með tilheyrandi drama. Fullt sem getur verið að gerast, bæði jákvætt og neikvætt, auðvelt og erfitt, skemmtilegt og leiðinlegt. En við megum ekki láta deigan síga. Við megum ekki refsa okkur fyrir tilfinningar okkar. Við megum ekki fá sjokk af því að okkur líður rosalega vel og það er allt gaman hjá okkur en kannski ekki eins gaman hjá öðrum. Við megum heldur ekki fyllast biturð ef það gengur betur hjá öðrum heldur en okkur. Við þurfum að einbeita okkur að okkur sjálfum, gera það sem við gerum best, elska og elska okkur sjálfar án skilyrða.

Allt sem við gerum krefst þess af okkur að við hugum að okkar eigin hugarfari. Það skiptir engu máli hvað öðrum finnst eða hvernig aðrir eru - það eru okkar viðhorf, hugsanir og tilfinningar sem skipta máli. Við þurfum að reyna að halda sem best í jákvæða hugarfarið okkar. Oft eru okkar eigin fordómar að standa í vegi fyrir því að við náum árangri og komumst áfram. Við erum oft með svo skelfilega fordóma og ranghugmyndir um okkur sjálfar að það stoppar okkur í að komast lengra. Við þurfum að byrja á að vinna í hugarfarinu okkar. Við getum ekki breytt öðrum en við getum breytt okkur sjálfum. Það er vissulega barátta að reyna að viðhafa alltaf jákvætt hugarfar og ég hef sagt að það koma auðvitað slæmir dagar og það koma auðvitað góðir dagar. Við verðum að muna að refsa okkur ekki fyrir slæmu dagana. Það lenda allir í því að eiga slæma daga. Hins vegar þurfum við ekki að leggjast í kör þótt við eigum slæman dag. Ef við viðurkennum þessa slæmu daga þá gengur okkur betur og betur að komast í gegnum þá, þessum dögum fækkar og góðu dagarnir verða fleiri og yndislegir.

Tilfinningar og hugsanir tengjast oftar en ekki ákveðinni hegðun, stöðum, atburðum. Kannski fáum við einhverja hugsun upp í kollinn þegar við gerum eitthvað eða lendum í einhverju og það framkallar tilfinningu. Þessi tilfinning leiðir okkur svo í fleiri hugsanir um hitt og þetta. Þetta er vítahringur neikvæðra hugsana en það jákvæða við þetta er að þennan vítahring er hægt að rjúfa. Margar ykkar þekkja þetta örugglega.

Við munum komast upp á lag með það að njóta. Njóta þess að hreyfa okkur og njóta þess að borða. Við munum læra að setja okkur markmið og fara eftir þeim. Það eina sem við þurfum er virkilegur VILJI til að gera það og við þurfum að trúa því að þetta sé hægt. Það gerir þetta enginn fyrir okkur. Því miður.

Þolinmæðin er grundvöllurinn. Skyndilausnir virka aldrei. Markmiðin sem við setjum okkur eru langtímaferli, það er lífsstíllinn sem við ætlum að tileinka okkur til frambúðar, en ekki einhver sex eða níu vikna kúr. Við viljum varanlegan árangur. Við þurfum líka að muna að við erum misjafnar eins og við erum margar og okkur gengur þar af leiðandi misvel.

Við þurfum að muna að það er ekkert til sem heitir vandamál bara lausnir.

Hin stórkostlega fjölbreytni mannlegrar reynslu yrði fátæklegri og ekki eins gefandi ef ekki væru neinar hindranir að yfirstíga.

Sigurgleðin yrði ekki svipur hjá sjón ef við næðum toppnum án þess að fara fyrst um dimma dali....

 

28.01.2013 23:18

Markmið vor 2013

 

 

  • að setja okkur sjálfar í fyrsta sæti
  • að efla sjálfstraustið
  • að sættast við okkur eins og við erum
  • að æfa skemmtilega líkamsrækt
  • að æfa í uppbyggjandi félagsskap
  • að taka eitt skref í einu
  • að neyta fjölbreyttar fæðu 4x á dag
  • að fá okkur einu sinni á diskinn
  • að sleppa narti á milli mála
  • að breyta hugarfarinu
  • að hugsa jákvætt og rökrétt

 

Rósirnar heilsurækt

28.01.2013 23:03

Jákvætt hugarfar, lykill hamingjunnar

Eins og þið margar vitið þá hef ég ávallt haldið því fram að forsenda alls í okkar lífi byggist á hugarfarinu. Ef jákvætt hugarfar er með í för þá er lífið miklu auðveldara. Ragga Nagli spurði í einu blogginu sínu: „Veistu hvað er stærsti áhættuþátturinn fyrir ofátskast? Stíf einhæf megrun, neikvæðar hugsanir um eigið útlit og svarthvíta hetjan“. Þetta er bara nákvæmlega það sem málið snýst um. Neikvæðar hugsanir, ofurkvíði fyrir hinu ókomna, neikvætt sjálfsniðurrif.

Ég held að ég geti fullyrt að ég var heimsmeistari í neikvæðni, skertri sjálfmynd, sjálfspíningu og sjálfsniðurrifi fyrir nokkrum árum síðan. Eftir að hafa nánast drepið sjálfa mig í öfgum átröskunar, þunglyndis og niðurrifs þá hef ég lært að það er fátt jafn mikilvægt og eigin hugsanir. Það sem við hugsum á hverjum degi mótar líf okkar. Fyrsta hugsun dagsins getur mótað daginn sem rétt er að byrja. Enginn nema við sjálfar getum stjórnað því hvað og hvernig við hugsum. Það getur enginn sagt okkur hvað okkur á að finnast eða hvernig okkur á að líða. Við erum sjálfar örlagavaldar okkar eigin lífs.

Lífið er stórkostleg gjöf sem ég er svo heppin í dag að fá að njóta. Fyrir mér er það ekki sjálfgefið. Ég hefði svo auðveldlega getað hagað mér þannig að ég væri ekki hér í dag. Harkalega sagt, en samt satt. Að vera frjáls í höfðinu og í hjartanu er stórkostleg gjöf sem ég gaf sjálfri mér. Auðvitað á ég mína slæmu daga en þeim fer sífellt fækkandi.

Sú leið sem ég ákvað að fara fyrir um 7 árum síðan, þegar ég ákvað að ég ætlaði að lifa lífinu lifandi en ekki í fjötrum eigin neikvæðni er einfaldlega byggð á kenningum hugrænnar atferlismeðferðar. Að breyta neikvæðum hugsunum í jákvæðar. Virkar svo ofur einfalt, en ég ætla ekki, frekar en margir aðrir sem hafa náð að snúa við blaðinu, að ljúga og segja að þetta hafi ekki verið neitt mál. Þetta var stórmál, en borgaði sig svo sannarlega. Enn í dag er ég að glíma við neikvæðar hugsanir og oft stend ég sjálfa mig að því að rífa niður það sem ég geri. Gagnrýna í frumeindir það sem ég gerði, spyrjandi sjálfa mig af hverju ég gerði ekki eitthvað annað eða öðruvísi. Mér finnst mjög skondið að skoða sjálfa mig þegar ég fer í þennan ham. Það sem ég kann hins vegar í dag en kunni ekki áður er að skilgreina hugsanirnar, raða þeim saman og finna ástæðurnar fyrir þessu neikvæða. Oft er ástæðan ekki flóknari en sú að ég hef ekki borðað í marga klukkutíma eða nætursvefninn riðlaðist eitthvað. Ef ég verð svöng, borða ekki klukkutímum saman eða sef illa þá brotna varnir líkamans niður og ég verð ómöguleg, pirruð, leið. En það er ekki þar með sagt að ég sé aumingi eða geti ekki gert neitt rétt. Það er þetta sem ég kann í dag að skilgreina. Ég reyni af fremsta megni að hugsa í lausnum en ekki í vandamálum. Ef það kemur eitthvað upp á sem ég finn að ég ræð ekki alveg við þá staldra ég við og skilgreini það sem er að. Hvað get ég gert til að bæta ástandið? Ekkert sem ég gerði í gær get ég lagað í dag eða strokað yfir, ég veit ekkert um það sem mun gerast á morgun. Ég get hins vegar lagt mitt af mörkum í dag til að halda áfram að vera jákvæð og þakklát og ég get gert allt sem í mínu valdi stendur til að bæta það sem veldur mér vanlíðan. Kvíði, stress og vonleysi eru fylgdarsveinar sem ég vil ekki ganga með. Þess vegna vil ég finna lausnir við aðstæðum sem upp koma og valda mér vanlíðan.

Það er annað sem mér finnst svo merkilegt og það er sú staðreynd að ég hef val. Ég get valið hvort ég vil gera svona eða hinsegin. Ég get valið hvernig ég tekst á við aðstæður. Ég get valið hvernig ég bregst við því sem er sagt við mig og um mig. Ég get valið að vera hamingjusöm, glöð, jákvæð og bjartsýn. Ég get líka valið að vera það ekki. En hvernig verður lífið mitt ef ég vel að vera það ekki? Á þann stað hef ég valið að fara ekki aftur.

Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að ég hef sjaldan verið jafn „þykk“ og ég er í dag. Hins vegar held ég að mér sé líka óhætt að fullyrða að mér hefur aldrei liðið jafn vel í eigin skinni. Andlega er ég sterkari en ég hef nokkurn tímann verið og líkamlega er ég hraust. Þegar ég var í sem versta ástandinu, fjörutíuogeitthvað kíló þá leið mér hörmulega. Dóttir mín gæti örugglega ekki notað fötin sem ég notaði þá. Fötin sem ég á í dag eru eins og keypt í Belgjagerðinni í samanburði við fötin sem ég keypti á sínum tíma í barnadeildum fataverslananna (þar sem ég passaði varla í XS í kvenfatabúðum). Ég hef ekki hugmynd um hvað ég er þung í dag því á vigt hef ég ekki stigið í nokkur ár. Ég þarf að kaupa mér sífellt stærri föt en það er bara ekki að bögga mig. Ég er í góðu formi, andlega og líkamlega. Það er það sem skiptir öllu máli. Að lifa í sátt og samlyndi við mig sjálfa.

Ég er eins og ég er.

Hvernig líður þér í þínu skinni?

28.01.2013 22:40

Orð dagsins: 28. janúar 2013

Þótt eitthvað gangi ekki upp sem þú varst búin að ákveða, þýðir það ekki að nú sé allt ónýtt og ómögulegt. Þegar einar dyr lokast opnast aðrar og ný tækifæri bíða. Mikilvægasta stund dagsins er líðandi stund. Notum hana vel.

12.01.2013 11:37

Orð dagsins: 7. janúar 2013

Opnaðu hugann fyrir jákvæðum hugsunum og dyr tækifæranna opnast. Fylgdu hjartanu þangað sem það leiðir þig og leyfðu þér að blómstra í þinni eigin fegurð. Hamingja er samræmi milli þess sem þú hugsar, gerir og segir.

 

05.01.2013 17:04

Orð dagsins: 5. janúar 2013

Hugsaðu um daginn í dag sem fallega gjöf sem þér var gefin. Dagurinn í gær er liðinn og þú færð honum ekki breytt. Hafðu ekki áhyggjur af morgundeginum, gerðu þitt besta í dag og brostu.

Njóttu lífsins og fylltu það af kærleika

  • 1
Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 138
Samtals flettingar: 252153
Samtals gestir: 37985
Tölur uppfærðar: 2.12.2024 10:47:07