Rósirnar heilsurækt
Hugsaðu vel um líkama og sál. Settu sjálfa þig og þína heilsu í fyrsta sæti.

28.01.2013 23:31

Breytingar

Það reynir oft á andlegu hliðina okkar þegar við erum að breyta til. Það eru ansi róttækar breytingar sem maður stendur frammi fyrir þegar maður ætlar að breyta um lífsstíl. Við megum alls ekki gleyma því að við munum eiga góða daga og við munum eiga slæma daga. Það reynir á jákvætt hugarfar þegar við breytum um en sagt er að hugarfarið beri okkur hálfa leið.

Það er margt sem getur verið að breytast hjá okkur. Ný verkefni, skóli, ný vinna, nýjar heimilisaðstæður, vinnumissir, missa fjölskyldumeðlim eða vin, veikindi, nýr fjölskyldumeðlimur, breytt mataræði, hreyfing. Börnin okkar eru að ganga í gegnum mismunandi þroskastig með tilheyrandi drama. Fullt sem getur verið að gerast, bæði jákvætt og neikvætt, auðvelt og erfitt, skemmtilegt og leiðinlegt. En við megum ekki láta deigan síga. Við megum ekki refsa okkur fyrir tilfinningar okkar. Við megum ekki fá sjokk af því að okkur líður rosalega vel og það er allt gaman hjá okkur en kannski ekki eins gaman hjá öðrum. Við megum heldur ekki fyllast biturð ef það gengur betur hjá öðrum heldur en okkur. Við þurfum að einbeita okkur að okkur sjálfum, gera það sem við gerum best, elska og elska okkur sjálfar án skilyrða.

Allt sem við gerum krefst þess af okkur að við hugum að okkar eigin hugarfari. Það skiptir engu máli hvað öðrum finnst eða hvernig aðrir eru - það eru okkar viðhorf, hugsanir og tilfinningar sem skipta máli. Við þurfum að reyna að halda sem best í jákvæða hugarfarið okkar. Oft eru okkar eigin fordómar að standa í vegi fyrir því að við náum árangri og komumst áfram. Við erum oft með svo skelfilega fordóma og ranghugmyndir um okkur sjálfar að það stoppar okkur í að komast lengra. Við þurfum að byrja á að vinna í hugarfarinu okkar. Við getum ekki breytt öðrum en við getum breytt okkur sjálfum. Það er vissulega barátta að reyna að viðhafa alltaf jákvætt hugarfar og ég hef sagt að það koma auðvitað slæmir dagar og það koma auðvitað góðir dagar. Við verðum að muna að refsa okkur ekki fyrir slæmu dagana. Það lenda allir í því að eiga slæma daga. Hins vegar þurfum við ekki að leggjast í kör þótt við eigum slæman dag. Ef við viðurkennum þessa slæmu daga þá gengur okkur betur og betur að komast í gegnum þá, þessum dögum fækkar og góðu dagarnir verða fleiri og yndislegir.

Tilfinningar og hugsanir tengjast oftar en ekki ákveðinni hegðun, stöðum, atburðum. Kannski fáum við einhverja hugsun upp í kollinn þegar við gerum eitthvað eða lendum í einhverju og það framkallar tilfinningu. Þessi tilfinning leiðir okkur svo í fleiri hugsanir um hitt og þetta. Þetta er vítahringur neikvæðra hugsana en það jákvæða við þetta er að þennan vítahring er hægt að rjúfa. Margar ykkar þekkja þetta örugglega.

Við munum komast upp á lag með það að njóta. Njóta þess að hreyfa okkur og njóta þess að borða. Við munum læra að setja okkur markmið og fara eftir þeim. Það eina sem við þurfum er virkilegur VILJI til að gera það og við þurfum að trúa því að þetta sé hægt. Það gerir þetta enginn fyrir okkur. Því miður.

Þolinmæðin er grundvöllurinn. Skyndilausnir virka aldrei. Markmiðin sem við setjum okkur eru langtímaferli, það er lífsstíllinn sem við ætlum að tileinka okkur til frambúðar, en ekki einhver sex eða níu vikna kúr. Við viljum varanlegan árangur. Við þurfum líka að muna að við erum misjafnar eins og við erum margar og okkur gengur þar af leiðandi misvel.

Við þurfum að muna að það er ekkert til sem heitir vandamál bara lausnir.

Hin stórkostlega fjölbreytni mannlegrar reynslu yrði fátæklegri og ekki eins gefandi ef ekki væru neinar hindranir að yfirstíga.

Sigurgleðin yrði ekki svipur hjá sjón ef við næðum toppnum án þess að fara fyrst um dimma dali....

 

Flettingar í dag: 116
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 199
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 97689
Samtals gestir: 22257
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 17:17:13