Rósirnar heilsurækt
Hugsaðu vel um líkama og sál. Settu sjálfa þig og þína heilsu í fyrsta sæti.

27.04.2013 16:05

Að velja réttu leiðina fyrir þig sjálfa

Að velja réttu leiðina fyrir þig sjálfa

Enn á ný er helgi. Er ekki alveg magnað að það séu eiginlega bara tveir virkir dagar í viku hverri? Föstudagur og mánudagur og svo er helgi?

Það er skrýtið andrúmsloft sem liggur yfir öllu þessa dagana finnst mér. Ótrúlegasta fólk er í lægð dögum saman. Ég hef heyrt í konum undanfarið sem segjast jafnvel aldrei áður hafa sokkið jafn langt niður og núna. Samt er að koma sumar.

En hvað er að valda þessari lundarfarslegu lægð? Allt og auðvitað ekkert líka. Það þarf ekkert alltaf að finna endalausar skýringar og ástæður fyrir öllu. Stundum líður okkur bara hreinlega ekki vel og við þurfum ekkert endilega að kryfja það til mergjar. Við þurfum að vera meðvitaðar um að við megum eiga okkar niður daga, það er enginn heimsendir, en við verðum líka að vera meðvitaðar um það að við þurfum að fara upp úr lægðinni líka. Lægðir eru ekki komnar til að vera endalaust – munið það!

Ég hef sagt ykkur frá mörgum misjöfnum köflum úr mínu lífi og líf mitt hefur verið ansi hreint skrautlegt. Ég hef hoppað á milli þess að vera kát og glöð og þess að vera döpur og leið og með engan vilja til að lifa eða vera.

En í dag sit ég og hugsa til þeirra sem ekki líður vel. Hugsa til allra þeirra sem á þessari stundu eiga í baráttu við sjálfa sig og sjá ekki neinn tilgang með neinu. Úff,  – ég var þarna sjálf. Ég var á þessum sama stað. Ég sat meira og minna í þessum sömu sporum í hátt í þrjá áratugi. Bíddu, hvað ég aftur gömul? Hundrað ára? Nei, nefnilega ekki. Ég er fjörutíu og eins árs og hef eytt mest öllum árum lífs míns í baráttuna um það að ákveða hvort þetta allt sé virkilega þess virði. Ég hef fundið svarið og svarið er já. Lífið er þess virði.

Ég er á toppnum í dag. Finnst æðislegt að lifa og vera til. Takast á við dagleg störf og njóta. Ég er ákveðin í því að þegar ég kveð þetta jarðneska líf þá muni ég hafa átt mikið fleiri góð ár en slæm.

Haldreipið og húmorinn

Það er tvennt sem stendur upp úr svona eftir á sem hefur haldið í mér lífinu og komið mér á þann stað sem ég er á í dag.

Í fyrsta lagi eru það yndislegu börnin mín og yndislega fjölskyldan mín. Börnin mín eru líf mitt og yndi og ég mun gera allt sem ég get til að hjálpa þeim í þeirra málefnum. Fjölskyldunni reyndi ég árum saman að ýta frá mér með misgóðum árangri. En þau fóru aldrei, voru skammt undan – sem betur fer. Ég einangraði mig frá öllu og öllum. En í raunni má kannski segja að ég hafi einangrað mig mest frá mér sjálfri því ég afneitaði sjálfri mér að nánast öllu leyti. Neitaði mér algjörlega um gæði lífsins, að njóta nokkurs skapaðs hlutar. Um leið og ég fór að njóta einhvers þá vandaði ég mig við að eyðileggja þá sælu með einhverju móti.

En í öðru lagi hefur húmor fyrir sjálfri mér haldið í mér lífinu. Ég á ákaflega auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á nánast hvaða kringumstæðum sem er. EFTIRÁ nota bene. Eftir að hafa legið í rúminu í þrjá daga í þunglyndiskasti, grenjandi og volandi þá fór ég á endanum á fætur, þvingaði sjálfa mig til að líta til baka, horfa yfir þessa þrjá daga og setja mig aðeins útfyrir kassann og reyna að horfa á sjálfa mig út frá öðru sjónarhorni. Þetta var yfirleitt gríðarlegt átak – að rífa mig á lappir til að takast á við skyldur daglega lífsins.

Ég hef nú stundum verið sögð kaldhæðin:

- * - * - * - * - * - * -

Einu sinni hittust feitur maður og mjór á götu. Feiti: „Þegar maður sér þig heldur maður að það sé hungursneið í landinu!“ Mjói: „Já, þegar maður sér þig heldur maður að það sé þér að kenna!“

- * - * - * - * - * - * -

Róni gekk upp að konu á Laugaveginum. „Ég hef ekki borðað í fjóra daga!“ Konan leit á rónann og sagði: „Ég vildi óska að ég hefði þennan viljastyrk!“ 

- * - * - * - * - * - * -

Það er svo ótrúlegt að þegar maður er í sjúklegu þunglyndi þá er maður hrikalega fyndinn/hlægilegur/sorglegur, vonandi skiljið þið hvað ég er að meina. Þetta er svo sannarlega ekki meint neikvætt, þvert á móti. Maður er svo uppfullur af ranghugmyndum, fullur af sjálfsásökunum, sjálsmyndin í svo miklu ólagi, sjálfstraustið nákvæmlega ekkert. Maður er í svo rosalegum kassa, sér ekkert út fyrir hann, sér ekkert jákvætt, allt er svo ömurlegt. Jafnvel fyndnustu brandarar eru það leiðinlegasta sem maður veit um. Maður dettur inn í ótrúlega skrýtinn heim sem er fullur af ranghugmyndum. Í raun má segja að ekkert í þeim heimi eigi við rök að styðjast. Maður sér ekkert gott. Jafnvel uppáhaldsmaturinn manns bragðast illa. Brad Pitt er ekki einu sinni sexý!

Dæmigerð niðursveifla hjá mér byrjaði kannski ekki á öðru en því að einhver sem ég bauð góðan daginn, sem gat verið hver sem er, hvar sem er og hvenær sem er, bauð mér ekki góðan daginn á móti. Hausinn á mér fór á hvolf og ég fór að hugsa allt það versta. "Hvað hafði ég gert af mér nú? Gerði ég eitthvað rangt? Djöfull er ég ömurleg! Af hverju bauð hann/hún ekki góðan daginn?" Allar þessar ímynduðu hugsanir leiddu svo til þess að ég fór að efast um sjálfa mig og á innan við hálftíma kannski var ég orðin ógeðslega ljót, heimsk, feit, bólugrafin, leiðinleg, frek og útskúfuð frá samfélaginu. Ekki þess virði fyrir neinn að svo mikið sem líta í áttina til mín. Ég fór í rusli í vinnuna, læddist meðfram veggjum svo enginn myndi nú „þurfa“ að verða á vegi mínum af því að ég var svo ógeðsleg. Ég bauð kannski góðan daginn þegar ég mætti, en sagði svo varla aukatekið orð meira allan daginn, nema ég nauðsynlega þyrfti. Og það fyndna er að allan daginn var ég svo sár innan í mér, hugsaði og hugsaði um hvað ég væri ömurleg, enginn vildi tala við mig því ég væri svo leiðinleg, ömurleg, ljót, feit. Blabla. Sat gráti nær og beið eftir því að vinnudagurinn myndi klárast svo ég kæmist heim og gæti lokað, læst, dregið fyrir og haldið öllum úti. Þá þyrfti enginn að sjá mig.

Svona beisikklí var þetta. Ég kom svo við í búðinni á leiðinni heim, keypti djöfuldóm af einhverju til að borða því ég þurfti að refsa mér fyrir að vera svona ömurleg og þörfin fyrir átköst og uppköst var gríðarleg. Ég hélt svo að allt yrði gott ef ég myndi loka mig af heima, enginn þyrfti að sjá mig né heyra og ég bara næði að verða grönn (sko, ég var grönn, sá það bara ekki sjálf þá, en hef séð myndir eftirá og já, ég var grönn). Ég hélt í alvörunni að allt myndi lagast bara ef ég yrði grönn. 

Oft entist ég heila vinnuviku í þessum pakka og lá svo heima alla helgina í biluðu þunglyndi. En börnin voru alltaf hjá mér og ég náði mér alltaf á endanum upp. Við vorum miklir félagar, ég og börnin, og það var gaman hjá okkur þremur saman. Í hvert einasta skipti þegar ég var að rísa upp úr lægð þá gat ég horft yfir dagana á undan og gert á ákveðinn hátt grín að sjálfri mér – ekki neikvætt grín, heldur jákvætt, því það er alveg rosalegt hvað þetta er sjúkt.

Ég veit ekki hvað ég er búin að skrifa margar samtalsbækur í huganum. Ég gæti ímyndað mér að þessi bókaflokkur teldi kannski eittþúsund bindi eða svo. Þessi samtöl átti ég í huganum við hina og þessa manneskjuna, ímynduð samtöl þar sem mér fannst ég verða að verja sjálfa mig og afsaka hvað ég væri ömurlega ljót og feit og leiðinleg og asnaleg. Í sumum samtölunum var ég voða vígreif, sagði mína meiningu, mína skoðun, segja ef mér sárnaði. En ég sagði samt aldrei neitt upphátt. Ég bar harm minn hlóðlega.

Og vitið þið – á sama tíma og þetta er ofboðslega sorglegt, þá er þetta er líka fyndið. Það er mjög skondið að horfa afturá bak í tímann og velta þessu tímabili fyrir sér. Mikið ofboðslega var ég veik. Ekki hlægilegt en kaldhæðnislega fyndið. Ég get hlegið að sjálfri mér. En að sjálfsögðu myndi ég ekki hlæja að öðrum – þú hlærð að þér, ég hlæ að mér. Þetta er svo ofboðslega mikið rugl. Ég hef reynt að kenna stelpum sem hafa fengið ráðleggingar hjá mér, að hafa húmor fyrir sjálfum sér. Það er mikið atriði að geta haft húmor fyrir sjálfum sér. Jákvæðan, sanngjarnan og heilbrigðan húmor.

Það er svo skelfilegt að hugsa til baka og sjá fyrir sér þennan veika einstakling. Það er mikil lukka sem hefur fylgt mér og góðar vættir hafa greinilega vakað yfir mér því mér tókst að halda lífi í gegnum þennan hræðilega tíma. Í dag lít ég á mig sem sigurvegara, ég lifði af gríðarlegt þunglyndi og lífshættulegan geðrænan sjúkdóm sem því miður sigrar of marga sem af honum þjást.

Sveiflurnar eru rosalegar. Sem dæmi um sveiflur þá voru til dæmis föt sem ég hafði keypt í einhverri uppsveiflunni allt í einu orðin svo hryllilega ljót og hálfvitaleg að það var komin þessi fína nýja ástæða til að ásaka sjálfa mig og hakka mig í spað. "Hvernig gastu verið svona ógeðslega mikill hálfviti að halda að þú gætir notað svona föt? Hvernig datt þér í hug að kaupa þetta?" Og allt eftir því.

Kannist þið við einhverja svona líðan? Að skammast og rífast og niðurlægja ykkur sjálfar út af hverju sem er? Endalaust? Finna nýjar og nýjar ástæður í sjálfsásakanir og niðurrif?

Spor í rétta átt

Spor í rétta átt verða stigin í smáum skrefum og það er ekkert annað en ögrun á okkur sjálfar. Þegar ég tala um Spor í rétta átt þá má alveg líka tala um bataferli. Spor í rétta átt eru þín spor – í réttu áttina fyrir þig. Það er ekkert víst að sporin í réttu áttina fyrir mig séu sporin í réttu áttina fyrir þig :)

Spor í rétta átt eru þau spor sem þú ákveður að stíga. Sporin sem þú stígur í áttina frá óreglulegu mataræði, óreglulegri hreyfingu, of stórum matarskömmtum, sporin frá því að hugsa ekki nægjanlega vel um sjálfa þig. Sporin þín, leiðin þín í átt að betra lífi.

Allt eru þetta spor í rétta átt. Sporin í áttina að þinni vellíðan. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá erum það víst elskulegu við sjálfar sem þurfum að bera ábyrgðina á því að okkur sjálfum líði vel. Við erum við stjórnvölinn. Það fær sér enginn einu sinni á diskinn fyrir þig, það er enginn sem getur mætt í ræktina fyrir þig. Það getur enginn sagt þér hvernig þú átt eða átt ekki að vera. Það getur enginn nema þú stjórnað þínu lífi, þínum tilfinningum og þínum viðbrögðum. Þetta er þitt líf, þín ákvörðun, þín ábyrgð.

Í bata ferlinu mínu las ég nokkur ljóð sem opnuðu augun mín. Ég man ekki hvað stelpan heitir sem skrifaði ljóðin en ég fann þau á http://frontpage.simnet.is/hugskot/  á sínum tíma. Yndislega skemmtilega skrifuð ljóð og ég fann mig algjörlega tilfinningalega í þeim mörgum:

Ósýnilegur                                                   

Þú getur orðið ósýnilegur                               
vegna eigin minnimáttarkenndar.                  

Þú getur hreinlega horfið                               
og misst alla útgeislun.

Þú getur orðið grár og daufur
eins og lítil mús
vegna þinnar eigin
niðurdrepandi skoðunar
á sjálfum þér.

Það tekur enginn eftir þér!
þú skilur ekkert í því!
Þú ert vonsvikinn og hissa,
því enginn veitir þér athygli!

Hvernig eiga aðrir að sjá
það sem alls ekki er til staðar
það sem læðist meðfram veggjum,
laumast út í horn (í hljóðri bæn)
og biðst stöðugt afsökunar á tilveru sinni?

 

Góða helgi,

knús og kærleikskveðja

Elísa Berglind

Flettingar í dag: 1856
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 426
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 228935
Samtals gestir: 35430
Tölur uppfærðar: 30.10.2024 03:38:49